Útreikningi á skuldalækkun Landsbankans vegna leiða sem bankinn kynnti í maí er nú að ljúka. Fyrir liggur að bankinn mun lækka skuldir viðskiptavina um 23 milljarða til viðbótar við það sem áður hafði verið gert. Skuldalækkunin fólst í þremur aðgerðum og náði til um 60 þúsund viðskiptavina.

Í tilkynningu bankans segir að skuldalækkunin skipti verulegum máli fyrir þúsundir heimila. Með aðgerðunum lækka fasteignaskuldir um 3.500 heimila um samtals 15,2 milljarða. Sú leið gekk lengra en 110% leiðin þar sem miðað var við fasteignamat í stað verðmats áður. Einnig var ákveðið að aðrar aðfarahæfar eignir komi almennt ekki til frádráttar.

Þá endurgreiðir bankinn skilvísum viðskiptavinum 20% af þeim vöxtum sem greiddir voru frá 1. janúar 2009 til 30. apríl 2011. Endurgreiðslan kemur fyrst til lækkunar lána, en séu viðskiptavinir skuldlausir fá þeir upphæðina lagða inn á reikning. Lækkunin nær til samtals 54.182 einstaklinga og nemur upphæðin samtals um 4,4 milljörðum króna.

Þriðja aðgerðin snýr að lækkun skulda umfram greiðslugetu, til dæmis yfirdráttur, skuldabréfalán og lánsveð. Sú lækkun getur numið 8 milljónum króna hjá hjónum, en 4 milljónum hjá einstaklingum. Lækkun annarra skulda nær til um 1.600 einstaklinga og nemur upphæðin 3,5 milljörðum, samkvæmt tilkynningu bankans.

„Meginmarkmið Landsbankans á þessu árið hefur verið að hraða uppgjöri skuldamála heimilanna. Að mati forsvarsmanna bankans voru þær leiðir sem í boði voru of tafsamar og flóknar og því var öll vinna við úrvinnslu skuldamála einfölduð og henni hraðað með sjálfvirkum keyrslum úr  gagnagrunnum. Þetta skilaði m.a. því að þó aðeins 2000 manns hafi sótt um 110% leið verða skuldir rúmlega 3.500 lækkaðar til samræmis við niðurstöðu leitar í gagnagrunnum bankans ,“ segir í tilkynningunni.