Fjármálaráðherrar evruríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa komist að samkomulagi um niðurfærslu skulda gríska ríkisins. Skuldir Grikklands verða lækkaðar um 40 milljarða evra. Jafnframt hefur hindrunum verið rutt úr vegi fyrir næstu greiðslu neyðarlána, samtals um 44 milljarða evra lánafyrirgreiðsla.

Erlendir fjölmiðlar hafa greint frá samkomulaginu sem náðist á fundi í Brussel eftir um tíu klukkustunda fundarhöld. Með samkomulaginu þykir ljóst að gríska ríkið getur staðið við launa- og lífeyrisskuldbindingar í desember.