Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman yfirlit yfir skuldir og vaxtagjöld ríkissjóðs. Hægt er að lesa ítarlega samantekt í frétt ráðuneytisins. Hafa ber í huga að samantektin vísar aðeins í brúttóskuldir ríkissjóðs en ekki skuldir hins opinbera að sveitarfélögum meðtöldum.

Bent er á að skuldir ríkissjóðs hafa farið lækkandi síðustu ár eða frá því að skuldirnar náðu hámarki í 1.510 milljörðum króna árið 2012. Fram til ársins 2016 lækkuðu skuldirnar um ríflega 370 milljarða króna og námu 1.130 milljörðum króna í árslok 2016.

Einnig er tekið fram að brúttó skuldahlutfall ríkissjóðs náði hámarki af landsframleiðslu árið 2011 og nam 86% en í lok síðasta árs var það 47,5%. „Lækkandi skuldahlutfall skýrist m.a af vexti landsframleiðslunnar og lækkun skulda vegna bættrar afkomu ríkissjóðs og óreglulegra tekna sem fallið hafa til. Á árunum 2008-2013 var uppsafnaður halli á rekstri ríkissjóðs um 360 ma.kr. sem var fjármagnaður með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Undir lok árs 2015 voru gerðir samningar við slitabú föllnu bankanna um greiðslu stöðugleikaframlags í tengslum við undanþágu þeirra frá gjaldeyrishöftum. Stöðugleikaframlögin námu alls 384,2 ma.kr. Stærstur hluti þeirra var í formi hlutafjár í Íslandsbanka eða 184,7 ma.kr. og skuldabréfs sem var útgefið af Kaupþingi með veði í bréfum Arion banka að fjárhæð 84 ma.kr. Aðrar eignir voru í formi skráðra og óskráðra verðbréfa, lánaeigna auk annarra eigna,“ er tekið fram í fréttinni.

Gekk mun betur en gert var ráð fyrir

Árið 2016 var hafist handa að koma þessum eignum í verð. „Það gekk mun betur en áætlanir gerðu ráð fyrir og var andvirði að fjárhæð 61,5 milljarða króna varið til niðurgreiðslu skulda á árinu,“ er tekið fram í tilkyningunni.

Í fjárlögum ársins 2017 er gert ráð fyrir að um 130 milljarða lækkun skulda frá árslokum 2016 til ársloka 2017. Stærstan hluta af skuldalækkuninni má rekja til ráðstöfunar stöðugleikaframlaga eða um 105 milljarða króna. „Forsenda þess er að Arion banki verði seldur fyrir lok árs. Að öðru leyti verður gengið á innstæður ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Langtímaáætlun gerir ráð fyrir áframhaldandi lækkun skulda,“ er einnig tekið fram.

Samsetning skulda ríkissjóðs

Erlendar skuldir samanstanda af tveimur markaðsútgáfum; einni í Bandaríkjadölum frá árinu 2012 að fjárhæð 1 milljarður dollara, gefin út til 10 ára, og hinni í evrum frá árinu 2014 alls að fjárhæð 750 milljónir evra, sem gefin var út til 6 ára.

Innlendar skuldir ríkissjóðs nema því 920 milljörðum króna og erlendar skuldir 203 milljörðum evra.

Þróun vaxtagjalda

Vaxtagjöld hafa sömuleiðis farið lækkandi síðustu ár með niðurgreiðslu skulda en eru þó enn mjög há, að mati fjármálaráðuneytisins, sér í lagi á alþjóðlegum samanburði.

„Ein ástæða þess er samsetning skulda en um 82% af heildarskuldum eru innlendar en 18% erlendar. Vaxtastig á Íslandi er mun hærra en víðast hvar erlendis og skýrir það mikinn mun á vaxtakostnaði milli landa,“ segir í fréttinni.