Einkaneysla landsmanna virðist nú vaxa hraðar en kaupmátturinn, þrátt fyrir ágætan vöxt kaupmáttarins, en útlit er fyrir að á komandi misserum muni hægja á vexti hvort tveggja. Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka sem telur að meira samræmi verði milli þessara stærða en verið hefur upp á síðkastið.

Bendir greiningardeildin á að meiri hækkun hafi verið á launavísitölu Hagstofunnar í síðasta mánuði heldur en í september fyrir ári, eða 0,8% á móti 0,6%. Hækkunin á þessum árstíma komi ekki til vegna samningsbundinna hækkana heldur óreglulegra greiðslna vegna bónusa, vaktaálags og svo framvegis.

Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs aðeins um ríflega 0,1%, og því jókst kaupmáttur launa um 0,6% í mánuðinum frá fyrri mánuði. Launavísitalan hafi hækkað nokkuð stöðugt síðustu 12 mánuði, en hins vegar hafi verðbólgan hjaðnað í september, eða úr 1,7% í 1,4%.

Kaupmáttur launa jókst um 6,0%

Því hafi bætt nokkuð í kaupmáttarhækkun launa, sem hafi verið 6,0% miðað við síðustu 12 mánuði. Vöxtur einkaneyslu hefur það sem af er ári verið hraðari en þessi kaupmáttaraukning, en framan af áratugnum hafi einkaneyslan þvert á móti haldist í hendur við kaupmáttinn meðan fólk hafi aukið sparnað og greitt niður skuldir.

Nú sé svo komið að þessi þróun hafi snúist við og merki eru um að skuldsetning heimilanna hafi aukist það sem af er ári. Býst bankinn við að einkaneyslan muni aukast enn hraðar svo að þegar árið verður gert upp í heild hafi einkaneyslan aukist um 8,0% meðan kaupmátturinn hafi aukist um 5,0%.