Hætt er við að niðursveifla í evrópsku efnahagslífi geti dregið hagvöxt í Kína niður úr 9,2% í í fyrra í 8,2% á þessu ári. Þetta er mat Alþjjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem varar við möguleikanum á alvarlegum samdrætti heimshagkerfisins á þessu ári. Bankar og fjármálafyrirtæki gætu orðið fyrir mesta skellinum.

Í mati sjóðsins á efnahagshorfum í skugga skuldakreppunnar á evrusvæðinu sem virðist hafa áhrif um heim allan segir að stjórnvöld í Kína ættu að geta varist hugsanlegum skelli með gríðarlega stórri fjárhagslegri innspýtingu inn í hagkerfið. Innspýtingin þarf að jafnast á við 3% af landsframleiðslu í Kína næstu tvö árin. Það jafngildir 460 milljörðum júana, rúmum 9.000 milljörðum króna, sem það kostar Kínverja að verjast hverri prósentulækkun, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar.

Viðvörun AGS er nokkuð samhljóða spá Alþjóðabankans en sendifulltrúar bankans sögðu ráðamönnum í Asíu fyrir nokkru að þeir yrðu að búa sig undir hugsanlegan skell af völdum skuldakreppunnar á evrusvæðinu.