Frá árinu 2012 hafa yfirdráttarlán og greiðslukortaskuldir landsmanna við innlánafyrirtæki farið stöðugt lækkandi. Yfirdráttarlán og greiðslukortaskuldir heimila námu um 79,3 milljörðum króna í janúar síðastliðnum og hafa lækkað um rúmlega 25% frá því í júlí árið 2012 á föstu verðlagi.

Á sama tíma hefur einkaneysla aukist töluvert. Á fjórða ársfjórð­ ungi áætlar Hagstofan að árstíðabundin einkaneysla hafi numið u.þ.b. 303,5 milljörðum króna. Á föstu verðlagi hefur einkaneysla vaxið stöðugt frá öðrum ársfjórðungi 2010, en frá þriðja ársfjórðungi 2012 hefur hún vaxið um 16,1%. Einkaneyslan er í dag á svipuðum stað og um mitt ár 2007, en yfirdráttarlán hafa ekki verið lægri síðan sumarið 2009.

Yfirdráttarlán og neysla
Yfirdráttarlán og neysla
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Frá september 2003 til september 2008 jukust yfirdráttarlán og greiðslukortaskuldir heimila um 15,5% (á meðalverðlagi fjórða ársfjórðungs 2016), þrátt fyrir talsverðar sveiflur milli mánaða. Á sama tíma jókst einkaneysla um 21%. Yfirdráttarlán jukust því í takt við einkaneyslu fyrir bankahrun, en frá byrjun árs 2010 hafa þau vaxið í sundur.

Þessar tölur eru merki um það að aukin neysla íslenskra heimila (og verg landsframleiðsla) sé ekki fjármögnuð með skammtímalánum frá viðskiptabönkum. Það sést enn fremur ef skoðað er hlutfall yfirdráttarlána heimila og einkaneyslu. Á föstu verðlagi hefur hlutfall yfirdráttarlána í einkaneyslu farið stöðugt lækkandi frá öðrum ársfjórðungi 2012. Undir lok síðasta árs nam hlutfallið 26,6% og hefur ekki verið lægra í um tuttugu ár, en hæst fór það í tæplega 61% snemma árs 2002.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .