Ríki heims standa frammi fyrir verri horfum á fjármálamörkuðum sökum hárrar skuldsetningar og hækkandi vaxta. Lánshæfismatsfélagið Fitch varar við því að þróunin muni setja ríkisstjórnum miklar skorður hvað varðar útgjöld á komandi tímum. Frá þessu er greint á vef Financial Times .

Skuldabyrgði ríkja heims er nær tvöfalt hærri en hún var fyrir fjármálahrunið 2008. Samkvæmt nýjum útreikningum Fitch nema skuldirnar nú 66 trilljónum dollara sem samsvarar skuldsetningu upp á 80% af vergri landsframleiðslu ríkjanna.

Þar sem stór hluti skuldanna er tilkominn vegna fjármálakreppunnar fyrir áratug þurfa mörg ríki að endurfjármagna skuldir sínar á næstunni. Þótt vextir séu enn lágir í sögulegu samhengi þá hafa þeir þokast upp á við undanfarnar vikur. Haldi sú þróun áfram munu áætlanir margra ríkisstjórna um aukin útgjöld verða að engu.