*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Erlent 11. janúar 2006 08:06

Skuldsettar yfirtökur og samrunar sjaldan fleiri

Ritstjórn

Robb M. Stewart, sem skrifar efasemdadálkinn (The Sceptic) hjá Dow Jones Newswires, setur spurningamerki við yfirtökur og samruna sem tröllriðið hafa viðskiptalífinu að undanförnu. Þeim fjölgaði mjög á síðasta ári og spáð er að þeim fjölgi enn meira í ár.

"Nú þegar heil vika er liðin af nýja árinu, hvar eru risa-yfirtökurnar sem búið var að lofa?

Fjöldi yfirtaka og samruna var mestur á síðasta ári frá árinu 2000 -- viðskiptaupphæð í heiminum nam yfir 2,7 billjónum (þúsundum milljarða) dollara. Þetta var 38% aukning frá árinu 2004 og var viðskiptaupphæð í Evrópu nærri því að ná upphæðinni í Bandaríkjunum, sem var 1,3 billjónir dollara.

Sérfræðingar spáðu í lok síðasta árs að viðskiptaupphæð í yfirtökum og samrunum myndi hækka um 10% í ár og bankamennirnir sem sjá um þessar sameiningar voru bjartsýnir á stærð og fjölda væntanlegra viðskipta.

Og þeir höfðu ástæðu til. Á síðasta ári voru 10 samningar í Evrópu og Bandaríkjunum fyrir meira en 10 milljarða dollara, samningarnir voru gerðir yfir landamæri og milli iðngreina og kaupum fjárfestingasjóða fjölgaði mjög þar sem aðgangur að háum fjárhæðum var tiltölulega auðveldur.

Þar til maður leiðir hugann að síðustu uppsveiflu, 1990-2000, og þess sem fylgdi í kjölfarið.

Á árinu 2005 gall í nokkrum viðvörunarbjöllum -- ekki síst hvað varðar skuldsetningu, sem hefur vaxið umtalsvert og gæti valdið keðjuverkun ef hiksti kemur á efnahagslífið á árinu 2006.

Standard og Poor's býst við því að lánshæfismat verði lækkað hjá fleiri fyrirtækjum á árinu 2006 en árinu 2004, þegar sá fjöldi náði lágmarki, en tilfellum þar sem fyrirtæki standi ekki við skuldbindingar sínar fjölgi ekki fyrr en á árinu 2007.

Aðaláhættan kemur frá fjárfestingasjóðum með djúpa vasa og vogunarsjóðum. Þessir fjárfestar hafa einbeitt sér að sífellt stærri yfirtökum og náði það hámarki með stærstu evrópsku skuldsettu yfirtöku sögunnar á danska fjarskiptafyrirtækinu TDC, en vegna skuldsetningarinnar eru þeir mjög viðkvæmir fyrir leiðréttingum í efnahagslífinu og ytri áföllum.

Það setur lánardrottna mögulega í vafasama stöðu.

Og um leið og skuldsettar yfirtökur verða eigendum skuldabréfa hættulegri, mun skuldabréfamarkaðurinn í auknum mæli krefjast þess að útgefendur setji "breytinga á yfirráðum" (e. "change of control")-ákvæði í skilmálana. Smásölufyrirtækið Kingfisher er á meðal örfárra sem hafa þegar sett slíkt ákvæði í skilmála sína, til að tryggja að af samningum yrði.

Þessar kröfur munu hins vegar hugsanlega draga úr áhuga á vissum tegundum yfirtaka og samruna -- eða að minnsta kosti auka kostnaðinn.

Fjárfestingasjóðir hafa stækkað á síðustu mánuðum, sem þýðir að sífellt stærri sjóðir leita að heimili. Fyrir utan að beina spjótum sínum hver að öðrum -- sem er ekki útilokað -- er þessum sjóðum beint um víðan völl, og kannski ekki alltaf með jafn miklar kröfur um skuldamargfaldara eða skuldsetningu.

Smá niðursveifla í efnahagslífi Bandaríkjanna, eða annars stórs lands, hækkun stýrivaxta, væri það eina sem þyrfti til að lánardrottnar sem tekið hefðu þátt í þessari bylgju yfirtaka og samruna kæmust í veruleg vandræði."