Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir kortaveltuna að aukast. Í Morgunblaðinu í dag er segir að vísbendingar séu um að niðurfærsla gengislána hafi farið beint út í neyslu aftur.

„Sumarið 2010 sáum við að fólk var aftur farið að taka svonefnd þægindalán á sölustað og greiða fyrir sjónvörp, húsgögn og snjallsíma með afborgunum. Það eru jafnframt vísbendingar um að nokkur hluti þess hóps sem fékk niðurfærslu skulda vegna gengisdóma hafi skuldsett sig aftur,“ segir Haukur.

Mikil skuldsetning heimila þýðir að vaxtahækkanir hafa mikil áhrif á greiðslubyrði óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum og mun sá áhættuþáttur fara vaxandi eftir því sem vægi slíkra lána eykst. Þorri fasteignalána er verðtryggður og kann áframhaldandi verðbólga og tilheyrandi hækkun höfuðstóls að vega á móti aðgerðum í þágu skuldara.