Stuðningslán stjórnvalda til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir mesta tekjufallinu vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins námu um 5,2 milljörðum króna í lok september en ríflega helmingur lánanna, eða tæplega 2,9 milljarðar, sem samsvarar 56% allra lánanna, hafa farið til fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Þó eru stuðningslánin ekki hátt hlutfall af heildarskuldsetningu fyrirtækjanna í ferðaþjónustunni, sem samanlagt námu um 29 milljörðum króna útlán fyrir veitingu nýju lánanna samkvæmt samantekt Seðlabanka Íslands við veitingu stuðningslánanna. Fyrirtæki í ferðaþjónustu sem þegið hafa þessi lán virðast þó almennt skuldsettari en félög í öðrum geirum sem þegið hafa slík lán. Alls námu stuðningslán til fyrirtækja í öðrum geirum 2,3 milljörðum króna en skuldir þeirra við viðskiptabanka fyrir lánveitinguna um 8,4 milljörðum króna.

Um er að ræða rekstrarlán með ríkisábyrgð og hafa 654 fyrirtæki fengið slík stuðningslán, þar af 592 með fullri ríkisábyrgð en 62 með ríkisábyrgð á 85% lánsfjárhæðarinnar. 38% lánanna hafa farið til fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins, eða fyrir ríflega 1,8 milljarða króna.

Lánin eru hugsuð til að styðja við smærri fyrirtækja sem orðið hafa fyrir miklum áhrifum af heimsfaraldrinum. Langstærsti hluti lánanna hafa farið til fyrirtækja með 10 eða færri starfsmenn, og meðalfjárhæð lánanna hefur verið um 8 milljónir króna.

Á eftir ferðaþjónustu hafa næst mest áhrif verið á þjónustu, en undir það fellur meðal annars veitingarekstur, og hafa 27% stuðningslánanna farið til slíkra fyrirtækja fyrir tæplega 1,3 milljarða króna. Heildarútlán þessara tilteknu fyrirtækja fyrir veitingu stuðningslánanna námu 5,3 milljörðum króna.

Þar á eftir kemur verslun með 445 milljónir, en þá eru stuðningslánin um helmingur allra útlána þeirra fyrirtækja sem fyrir námu um 952 milljónum króna, en næst á eftir kemur iðnaður með 401 milljóna króna stuðningslán, en hjá þeim fyrirtækjum var skuldsetningin fyrir um 1,4 milljarðar króna.