Öllum virðist sama um það þótt fyrirtæki sem eyddu stórfé í að styrkja stöðu sína fyrir hrun en fengið miklar afskriftir eftir hrunið með tilheyrandi skelli fyrir kröfuhafa eigi nú fúlgur fjár til að beita sér í samkeppni við önnur fyrirtæki. Sparnaður felst í því að þurfa ekki að borga af lánum sínum, að sögn Benedikts Jóhannessonar, stjórnarformanns Nýherja.

Benedikt hélt harðorða ræðu á aðalfundi fyrirtækisins á föstudag í síðustu viku. Þar fór hann yfir stöðu Nýherja. Fyrirtækið tapaði 70 milljónum króna í fyrra samanborið við 300 milljóna króna hagnað árið 2010. Benedikt sagði í erindi sínu afkomuna valda stjórn Nýherja vonbrigðum.

„Ég hef oft sagt að af félaginu þyrfti að vera traustur hagnaður eftir skatta. Ekki er til of mikils mælst að hann verði til skemmri tíma 3% af veltu eða nálægt 450 milljónum króna. Mikilvægt er að reyna að ná því takmarki á yfirstandandi ári. Til þess að svo megi verða þarf hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta að vera um 900 milljónir króna eða um 225 milljónir króna á hverjum ársfjórðungi. Hjal um EBITDA er lítils virði þegar rekin er starfsemi sem krefst mikilla fjárfestinga eins og tæknisviðið,“ sagði stjórnarformaðurinn.

Mörg fyrirtækið í samkeppni við Nýherja

Benedikt beindi jafnframt orðum sínum að þeim fyrirtækjum sem hafi farið í gegnum skuldaaðlögum með tilheyrandi afskriftum fyrir kröfuhafa og fari nú stórum á markaðnum: „Það er fróðlegt að sjá hvað hefur gerst á tölvu- og hugbúnaðarmarkaði almennt hér á landi. Þessi markaður er mjög kvikur og á þeim tuttugu árum sem félagið hefur starfað hafa keppinautar Nýherja komið og farið, skipt um nöfn og númer eins og einhvern tíma var sagt. Helstu keppinautar félagsins eru nýkomnir úr mikilli skuldahreinsun þar sem milljarðatugir hurfu út í loftið. Öllum virðist nákvæmlega sama um það að félög sem eyddu stórfé í það að styrkja stöðu sína fyrir hrun, peninga sem bankarnir þurftu að afskrifa, eiga nú fúlgur fjár til þess að beita í samkeppninni. Það er óneitanlega sparnaður í rekstri að þurfa ekki að borga af lánum.“