Hluta skulda Lýsingar hefur verið breytt í hlutafé og félagið hefur lokið fjárhagslegri endurskipulagningu sinni. Þetta staðfestir Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar, í samtali við Viðskiptablaðið. Búið er að senda gögn um endurskipulagninguna til fyrirtækjaskráar og beðið er samþykkis Fjármálaeftirlitsins (FME) á að Lýsing uppfylli skilyrði þess um eigið fé í kjölfar hennar.

Mál Lýsingar hafa verið til vinnslu hjá FME og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur fyrirtækið verið rekið á undanþágu frá reglum FME um margra mánaða skeið. Eignir Lýsingar rýrnuðu um 20,4 milljarða króna þegar Hæstiréttur dæmdi að veiting gengistryggðra lána í íslenskum krónum væri ólögmæt.

Í lok árs 2009 var eigið fé Lýsingar 8,5 milljarðar króna og því er ljóst að eigið féð varð neikvætt um tæpa 12 milljarða króna eftir dóm Hæstaréttar.

Fjárhagsleg endurskipulagning Lýsingar hefur legið fyrir frá því í október en er nú fyrst að klárast. Á stjórnarfundi í fyrirtækinu í desember var veitt heimild til að hækka hlutafé þess. Sú heimild var nýtt til að breyta skuldum í hlutafé. Exista verður áfram eigandi Lýsingar eftir endurskipulagninguna.