*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 26. nóvember 2019 11:40

Skúli: Auðvelt að vera vitur eftir á

Skúli Mogensen segir rangt að rekstur Wow air hafi verið ósjálfbær frá upphafi. Fyrirtækið hafi hins vegar fjarlægst upprunalegu stefnu.

Ritstjórn
Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri Wow air.
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri og stofnandi Wow air, gagnrýnir umræðuna um fyrirtækið í færslu á Facebook. Ekki sé rétt að reksturinn hafi alla tíð verið ósjálfbær.

„Ævintýralegur vöxtur WOW air hefur verið gagnrýndur og því hefur verið haldið fram að rekstur WOW air hafi aldrei gengið, lág fargjöld félagsins hafi verið ósjálfbær og að WOW air hafi niðurgreitt lág fargjöld með botnlausum tap rekstri. Þetta er einfaldlega ekki rétt,“ segir Skúli.

Skúli bendir á að miðað við nýútkomna bók Frjálsrar verslunar um 300 stærstu fyrirtæki landsins hefði Wow air átt heima á listanum yfir tíu stærstu fyrirtæki landsins með um 75 milljarða króna veltu á síðast ári.

„Hver sem er getur flett upp í ársreikningum félagsins og þá sést að samanlagður hagnaður WOW air allt frá stofnun til ársbyrjun 2018 var um 1 milljarður króna. Staðreyndin er sú að viðskiptamódel og rekstur WOW air gekk mjög vel fyrstu árin sem lággjaldafélag og skilaði góðri afkomu þrátt fyrir mikinn vöxt, gríðarlega fjárfestingu í innviðum, þjálfun starfsfólks, fjárfestingum í flugflotanum, tækni þróun og alþjóðlegri markaðssetningu,“ segir Skúli.

Skúli segir mikilvægt að halda þessu til streitu vegna þess fjölda af góða fólki sem starfaði hjá Wow og eigi fjöldinn heiður skilið fyrir að hafa byggt upp WOW sem öflugt lággjaldafélag og að hafa brotið blað í íslenskri flugsögu. 

„Þessi öflugi hópur ásamt samstarfsaðilum flaug með um 2 milljónir ferðamanna til Íslands og eyddu farþegar WOW air um 380 milljörðum í innlenda neyslu á árunum 2012 til 2018 þar af um 90 milljarða bara í fyrra. Á sama tímabili voru beinar skatttekjur ríkissjóðs af farþegum WOW air um 54 milljarðar. Það munar um minna. Ég er óheyrilega stoltur af uppbyggingu WOW og þeim jákvæðu áhrifum sem WOW og ferðaþjónustan í heild sinni hefur haft í endurreisn Íslands eftir hrun. Það má læra margt af vexti og falli WOW en það er mjög auðvelt að vera vitur eftir á,“ segir Skúli.

Fall Wow hafi stafað af því að félagið hafi verið að það fjarlægðist upprunalega stefnu félagsins og fórum af lággjaldabrautinni og tókum inn breiðþoturnar. „Þetta voru grundvallar mistök sem felldu félagið en það breytir ekki þeirri staðreynd að fram að þeim tíma gekk rekstur og uppbygging WOW air vel og skilaði hagnaði þrátt fyrir öran vöxt og lág fargjöld,“ segir Skúli.

 

Stikkorð: Skúli Mogensen Wow air