Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Wow air, segist hafa gert banvæn mistök með því að reyna að breyta Wow air í alþjóðlegt fyrirtæki í viðtali við Financial Times.

Hann hafi viljað gera Ísland að tengipunkti milli þriggja heimsálfa, Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu. En þegar olíuverð tók að hækka á síðasta ári hafi verið ljóst að breyta þyrfti hratt um stefnu.

„Eftir á að hyggja þá reyndust breiðþoturnar því miður vera banabitinn.“ Mest allt árið 2018 kostaði flugvélaeldsneyti 80 til 90 dollara en fór upp í 100 dollara í október. Í lok mars var olíuverðið ríflega 80 dollarar en fór niður í allt að 50 dollara tveimur árum fyrr.

Michael O'Leary, forstjóri Ryanair, sagði í maí 2018 eftir að olíuverð fór að hækka, að ljóst væri að mörg flugfélög sem ekki skiluðu hagnaði árið 2017 myndu ekki lifa af þennan vetur líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma.

Varanleg áhrif á íslenska ferðaþjónustu?

Skúli segir að þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir hafi skuldir félagsins einfaldlega verið of miklar til viðbótar við krefjandi rekstrarumhverfi flugfélaga. Félagið hafi runnið út á tíma við að tryggja sér frekara fjármagn.

Þá kunni áhrifin á íslenska ferðaþjónustu að vera meiri en menn hafi búist við þar sem meira en helmingur farþega Wow air hafi flogið í gegnum Ísland í stað þess að fara beint á áfangastað. Fleiri lágjaldaflugfélög muni nú fljúga beint yfir Atlantshafið og þar með sleppa viðkomu á Íslandi. Wow air flutti nærri 30% ferðamanna til landsins í fyrra.