*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 26. júní 2017 11:00

Skúli býður flugmönnum vinnu

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, segist glaður myndi bjóða flugmönnum Icelandair vinnu, ef þeir standast hæfnikröfur Wow air.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, segir að hann myndi glaður bjóða þeim flugmönnum Icelandair vinnu,sem sagt var upp, svo framarlega sem það stendur hæfnikröfur flugfélagsins. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins

Icelandair sagði upp að minnsta kosti 115 flugmönnum og tilkynnti 70 flugstjórum til viðbótar að þeir yrðu færðir til hjá flugfélaginu. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði um helgina að uppsagnirnar væri hluti af reglulegri starfsemi Icelandair, að flugmennirnir væru ráðnir inn á vorin sem síðan sé sagt upp á haustin. 

Skúli tekur þó fram að vissulega séu einnig einhverjar árstíðasveiflur hjá Wow air. Hann segir að félagið reyni þó að halda í flugmenn til að byggja upp til langs tíma, til að draga úr sveiflum. Flugfélagið hefur vaxið ört á síðastliðnum misserum, gerir forstjórinn ráð fyrir því að umfang félagsins tvöfaldist og starfsmannafjöldinn með. 

Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir ákvörðun Icelandair um að segja upp flugmönnunum 115 ekki gott innlegg í kjaraviðræður flugmanna, samningarnir losna í september. Hann segir starfsmannastefnu félagsins súra og dapra. „Þeir sjá þarna tækifæri til að spara peninga og láta menn fara af launaskrá í örfáa mánuði og þetta er eitthvað sem við teljum að þeir ættu að fara að endurskoða. Það er eingöngu peningasjónarmið þarna á bak við," sagði Örnólfur í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun