Skúli Þórðarson hefur verið ráðinn sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit. Áætlað er að hann hefji störf um miðjan ágúst, að því er fram kemur á vef sveitarfélagsins.

Skúli hefur gegnt stöðu sveitarstjóra í Húnaþingi vestra frá árinu 2002 en lét af störfum þar í vor. Áður gegndi hann bæjarstjórastöðu á Blönduósi frá 1994 til 2002. Þá var hann framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra 1993 til 1994. Skúli lauk MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2012 og BA-gráðu í stjórnmálafræði frá sama skóla árið 1991.

Margir sýndu starfinu áhuga og sóttu alls 63 um stöðuna. Þar á meðal voru Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfari og Gunnar Þ. Andersen, fyrrum forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Íbúar Hvalfjarðarsveitar eru um 600 talsins.