„Við berum vissulega virðingu fyrir góðum keppinautum en teljum okkur fyllilega samkeppnisfæra enda með lægri kostnaðarstrúktur en öll flugfélög sem við erum að keppa við, þar með talið Easyjet. CASK Easyjet (einingakostnaður, innsk. blm.) er ca. 8.2 US cent á meðan CASK hjá WOW í ár er áætlaður ca. 5.5 US cent. Við getum því boðið lægri fargjöld en keppinautar okkar en samt verið með jákvæða afkomu.“

Þetta segir Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, í viðtali við Túrista þar sem hann er meðal annars spurður að því hvaða áhrif það hafi á markaðinn að Easyjet, næststærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, sé farið að bjóða upp á rúmlega hundrað ferðir í mánuði hingað til lands. Skúli segir Easyjet hafa vakið athygli á Íslandi á sínum mörkuðum sem sé jákvætt fyrir heildina.

Í viðtalinu segir Skúli einnig að hann geri ráð fyrir mikilli fjölgun flugfarþega hjá félaginu. „Við gerum ráð fyrir að fjöldi farþega hjá WOW air vaxi um 65 prósent í ár og að það verði áfram góður vöxtur á næsta ári. Við munum kynna áætlun fyrir árið 2016 í haust eins og venja er.“