Stjórnendur WOW ásamt fulltrúum Arctica Finance funduðu með bankastjórum stóru bankanna þriggja í gær. Fundað var í húsakynnum Arctica Finance í turninum við Höfðatorg.  Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Fréttablaðið greinir frá því að Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn skoði nú hugsanlega aðkomu að skuldabréfaútboði WOW . Eins og áður hefur komið fram er WOW að reyna að afla 5,5 milljarða króna í útboðinu en samkvæmt Fréttablaðinu vantar enn „milljarða" upp á að lágmarki skuldabréfaútboðsins verði náð.

Í ágúst fundaði Skúli Mogensen einnig með bönkunum eins og kom fram í frétt Viðskiptablaðsins, sem birtist undir fyrirsögninni „ Biðlar til íslenskra fjárfesta ".

Þegar skuldabréfaútboðið var kynnt um miðjan ágúst hugðist WOW air sækja sér 6 til 12 milljarða króna. Átti það að duga til að brúa reksturinn næstu átján mánuði en þá stefnir félagið að skráningu á markað. Síðan þá hefur ýmislegt breyst, bæði skilmálar í útboðinu sem og fjárhæðin sjálf því nú hyggst félagið sækja sér 5,5 milljarða eins og áður sagði.
Fréttablaðið hefur eftir jafnframt eftir heimildum að Skúli Mogensen , eigandi WOW , og Páll Rúnar Mikael Kristinsson, lögmaður félagsins, hafi setið fund í húsakynnum Samkeppniseftirlitsins seinnipartinn í gær en hefur engar upplýsingar um þann fund.