*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 30. janúar 2017 16:40

Skúli: „Fyrst í boði á lengri flugleiðum“

Skúli Mogensen segir flug til Ísrael í skoðun, en boðuð viðskiptafarrými verði í boði á öllum flugleiðum innan 12 mánaða.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fyrr í dag þá hyggst Wow air bjóða upp á viðskiptafarrými með stærri og breiðari sætum og meiri fríðindum.

Verður hægt að velja þrjár mismunandi bókunarleiðir í bókunarkerfi félagsins en meðal annars verður farþegum á viðskiptafarrými veittur forgangur þegar gengið er um borð í vélar félagsins.

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta hafi verið í skoðun í dágóðann tíma. „Við höfum fundið fyrir mikilli aukningu farþega frá fyrirtækjum sem við fögnum," segir Skúli.

„Við sjáum fram á mikil tækifæri í að bjóða upp á sætamöguleika sem þjóna kannski fyrst og fremst viðskiptalífinu, en við teljum okkur geta lækkað slík fargjöld verulega miðað við það sem hefur verið í boði."

Á lengri flugleiðum til að byrja með

Skúli segir pakkana sem er í boði vera mismunandi en forgangurinn verður í boði frá og með 1. mars næstkomandi.

„Fyrst og fremst eru þetta stærri og breiðari sæti með meira fótaplássi á þessum lengri flugum okkar til Los Angeles, San Fransisco og Miami, ásamt London, París og Amsterdam," segir Skúli en hægt verður að panta í þau frá og með miðvikudeginum komandi.

„Við finnum sérstaklega fyrir því á þeim leiðum að það er eftirspurn eftir þessu, enda mætum við þessu fyrst á stærri flugvélum okkar, en á næstu tólf mánuðum munum við setja svona sæti í allar flugvélar okkar.“

Verða stóru sætin komin í Airbus A330 vélar félagsins frá og með 1. júní meðan viðskiptasætin sem hafa meira fótabil en hefðbundin sæti eru í boði strax í Airbus A321 og Airbus 320 vélunum.

Skoða flug til Ísrael

Skúli segir þessi sæti auðvitað standa öllum til boða, þó þau heiti viðskiptafarrými.

„Við erum með margvíslega möguleiga og við pökkum þessu saman á ýmsa vegu, en það er með þetta eins og annað hjá okkur að við erum stöðugt að þróa, bæta og breyta eftir viðbrögðum og samtölum okkar við okkar farþega," segir Skúli sem segir stigsmun vera á fargjöldunum.

„Það getur hver sem er farið inn á vefinn okkar og keypt ódýrasta fargjaldið og síðan ákveðið að bæta við stóru sæti seinna, þannig að þetta er ekki bundið við þessa þrjá flokka."

Skúli vildi lítið gefa upp um fréttir þess efnis að það liti út fyrir að Wow air hyggðist hefja áætlunarflug til Ísraels.„Við erum að skoða Ísrael ásamt mörgum öðrum skemmtilegum stöðum. Þetta er allt í skoðun," segir Skúli að lokum.