*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 7. nóvember 2019 15:31

Skúli hefði frestað hruninu til 2010

Ásgeir Jónsson segir það sagt um Skúla Mogensen að hefði hann verið bankastjóri í hruninu hefði það frestast til 2010.

Júlíus Þór Halldórsson
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri uppskar ítrekuð hlátrasköll á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun.
Aðsend mynd

„Það er sagt að ef Skúli Mogensen hefði verið bankastjóri þá hefði hrunið átt sér stað 2010 en ekki 2008, honum hefði tekist að halda þessu töluvert lengur...“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á árlegum Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun, í samhengi við að niðursveiflan í ferðaþjónustu hafi verið minni en spáð hafði verið. Honum tókst hinsvegar ekki að klára setninguna sökum hlátraskalla úr salnum, en um 130 manns voru á fundinum.

Ummælin eru vísun í lífseigju flugfélags Skúla, Wow air, sem skilaði loks flugrekstrarleyfinu og var lýst gjaldþrota í lok mars síðastliðnum, eftir að hafa að sögn Deloitte – sem vann skýrslu um reksturinn eftir fall hans – í raun verið gjaldþrota frá miðju ári 2018, og í millitíðinni ráðist í skuldabréfaútboð og átt í ítrekuðum viðræðum við tvö önnur flugfélög um yfirtöku á Wow.

Ásgeir var léttur í lund í morgun þótt umræðuefnið væri alvarlegt. Hann velti því meðal annars kíminn fyrir sér hvort aukna bjartsýni fyrirtækja sem mælst hefur nýverið mætti rekja til skipan nýs seðlabankastjóra, og vísaði þar til eigin embættistöku síðastliðinn ágúst.

Þá sagði hann lækkun skatta og hækkun bóta hafa komið sér vel fyrir hagkerfið á þessum tímapunkti, en um tildrög þess sagði hann að „þegar tveir flokkar koma saman í ríkisstjórn og annar vill lækka skatta og hinn hækka bætur þá bara gerist hvort tveggja.“ Var hann þar líkast til að vísa til stefnu Sjálfstæðisflokksins um lægri skatta, og Vinstri Grænna um hækkun bóta og styrkingu velferðarkerfisins almennt.

Eins og sagt var frá áðan kom hann inn á fordæmalausa stöðu efnahagsmála hér á landi og mikilvægi atvinnumarkaðar og kjarasamninga í því að viðhalda því jafnvægi sem náðst hefur.