Skúli Gunnar Sigfússon sem oft er kenndur við Subway hefur lýst yfir áhuga á því að reisa þjónustumiðstöð á Reynivöllum til að þjónusta þá  ferðamenn sem sækja heim Jökulsárlón - enn fremur er gert ráð fyrir því a byggja 70 til 110 herbergja hótel á svæðinu. Um málið er fjallað bæði í frétt Ríkisútvarpsins og frétt Mbl.is.

Skúli hefur nú þegar sent bæði bæjarráði Hornafjarðar og umhverfisráðherra bréf fyrir hönd félagsins Suðursveit ehf. þar sem að hann greinir frá áætlunum sínum. Erindi Skúla var tekið fyrir á fundi bæjarráðs á fimmtudaginn. Í erindi hans kemur meðal annars fram að með því að byggja þjónustumiðstöð við Reynivelli, sem eru um 10 kílómetrum frá lóninu, megi vernda umhverfið enn betur og minnka álag á svæðinu.

Í frétt RÚV segir að bæjarráð fagni áhuga Skúla á uppbyggingu í Suðursveit. Eins og áður hefur verið greint frá, þá var Jökulsárlón friðlýst og gert að hluta af Vatnajökulsþjóðgarði.

Stórhuga áform

Skúli segir í samtali við Mbl.is að það sé betra að byggja þjónustuna á Renivöllum til þess að það sé sem minnst uppbygging og rask við lónið sjálft. Hann bendir á að keyslan á milli sé einungis 7 mínútur. Hann bætir við að fyrirhugað sé að selja eldsneyti, að setja á stofn kjörbúð, veitingastað og sölu á ferðum á Vatnajökul í þjónustumiðstöðinni. Einnig sé inn í myndinni að byggja sundlaug.

Skúli hefur verið talsvert virkur í fjárfestingum í ferðaþjónustu upp á síðkastið en í frétt Ríkisútvarpsins er rifjað upp að Skúli hafi komið að eldfjallasetri á Hvolfsvelli og er í hópi fjárfesta sem tóku Raufarhólshelli á leigu en gjaldtaka í hellinn hófst í sumar.