„Ég hef miklar efasemdir um að ríkið eigi að blanda sér inn í þennan gjörning með því að kaupa hlut í HS orku í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs," segir Skúli Helgason, formaður iðnaðarnefndar Alþingis. „Hins vegar er eðlilegt að ríkisvaldið skoði nú hvort í þessu tilviki sé staðinn nægilegur vörður um hagsmuni almennings.”

Alþjóðlega fyrirtækið Magma Energy hefur sem kunnugt er gert tilboð í hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS orku. Nái það fram að ganga hefur það náð samtals um 43% í fyrirtækinu.

Tveir ráðherrar Vinstri grænna hafa hins vegar lýst því yfir að hlutur OR í HS orku eigi að vera í almannaeigu. Þá skoraði fundur í Grindavík í gærkvöld á ríkisstjórn og sveitarfélög að koma í veg fyrir kaup Magna Energy á hlutnum í HS orku.

Miðað við tilboð Magma um að kaupa hlut OR á genginu 6,31 kostaði það ríkissjóð tæpa tuttugu milljarða að kaupa fimmtíu prósent í HS orku.

Þjóðin fái sanngjarnt verð fyrir nýtingarréttinn

Skúli Helgason segir þegar hann er spurður út í þetta mál að hann sé í grundvallaratriðum fylgjandi því að fá erlent fjármagn inn í orkugeirann.

„Hins vegar er mjög mikilvægt að þjóðin fái sanngjarnt verð fyrir nýtingarrétt af auðlindunum og jafnframt að einkaaðilar sem fjárfesta í orkugeiranum sýni samfélagslega ábyrgð og skuldbindi sig til að taka þátt í frekari uppbyggingu íslensks atvinnulífs til lengri tíma en fari ekki bara með arðinn beint úr landi.” segir hann.

Þá sé vitanlega nauðsynlegt að lögum sé framfylgt og að HS orka leigi nýtingarréttinn tímabundið, en samkvæmt lögum er miðað við allt að 65 ár. Handhafi tímabundins afnotaréttar á síðan, skv. lögunum, rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.

Skúli segir að úr því þurfi að fá skorið hvort samningstilboðið geri ráð fyrir lengri nýtingarrétti.  Það sé klárlega óheimilt samkvæmt lögunum. Hann segist vera að viða að sér upplýsingum um allar staðreyndir málsins.

Alþingi fari aftur í gegnum lagarammann

Skúli segir að lög um eignarhald auðlinda í opinberri eigu séu skýr en þau voru samþykkt á Alþingi í lok mái 2008. Samkvæmt þeim eiga náttúruauðlindir alfarið að vera í opinberri eigu og veitufyrirtækin í meirahlutaeigu opinberra aðila. Hins vegar eru ekki hömlur á eignarhaldi fyrirtækja sem stunda vinnslu og sölu raforku, en undir þann hatt fellur HS orka.

Skúli segir eðlilegt að umræðan blossi upp þegar grunur leiki á að verið sé að selja afnot af auðlindunum á afsláttarkjörum. Hann segir sömuleiðis eðlilegt að löggjafinn fari aftur í gegnum lagarammann um orkumál og erlendar fjárfestingar til að tryggja að hagur almennings sé tryggður varðandi nýtingu á orkuauðlindum.

Þá sé grundvallaratriði að lögfesta sem fyrst ákvæði um þjóðareign á auðlindunum í stjórnarskrá.