Skúli Mogensen, forstjóri Wow, segir í tölvupósti til starfsmanna að viðræðurnar við Indigo Partners gangi vel og hrekur orðróm um annað aftur til föðurhúsanna. Fréttablaðið greinir frá þessu og hefur beint eftir Skúla. „Veturinn hefur verið erfiður en ég get fullvissað ykkur um að viðræðurnar við Indigo Partners ganga vel og samkvæmt áætlun eins og þið sem takið beinan þátt í þeim vitið. Það er fullkomlega eðlilegt að flóknar viðræðu og stórar fjárfestingar taki lengri tíma en búist var við,“ skrifar Skúli.

„Á meðan viðræðunum stendur veit ég að þið fáið daglega spurningar og það leikur enginn vafi á því að áfram verða ósannir orðrómar um WOW air á kreiki. En ég er sannfærður um að svo lengi sem við höldum áfram og einblínum á það, að bjóða lág verð, góða þjónustu og koma farþegum tímanlega á áfangastaði, muni okkur takast ætlunarverkið.“

Skúli segir jafnframt í bréfinu að reksturinn hafi gengið vel á nýju ári og tekjur í janúar hafi verið umfram áætlun. Þá hafi stundvísi félagsins ekki verið betri í mörg ár og það skipti miklu máli hvað varði kostnað og ánægju farþega.