Ég segi stundum að þetta hljóti að hafa verið stundarbrjálæði,“ segir Skúli Mogensen, stofnandi, eigandi og forstjóri WOW air, þegar hann er inntur eftir því hvernig honum kom til hugar að stofna flugfélag. Áætlanir félagsins gera nú ráð fyrir tuttugu milljarða tekjuvexti á næsta ári, úr tæplega 50 milljörðum 2017 í yfir 70 milljarða 2018. Skúli stefnir á að skrá félagið á markað erlendis árið 2019.

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri og raunar gengið betur en ég þorði að vona. Þetta er líka orðið miklu umfangsmeira en ég bjóst við, ekki síst sá árangur sem við höfum náð í að koma okkur fyrir erlendis.“ Lággjaldaflugfélögin hafa hingað til einblínt á styttri flug, til dæmis innan Evrópu og Norður-Ameríku. „Við erum í rauninni búin að búa til nýjan vöruflokk, svokallað long-haul low-cost,“ sem þýða mætti sem lággjaldalangflug. Þegar Skúli og félagar stofnuðu WOW air árið 2011 hafði hann verið í ýmsum fjárfestingum frá 2008 og áleit sig hálfpartinn sestan í helgan stein.

„Mér hefur gengið ágætlega heilt yfir í viðskiptum en gekk ömurlega að setjast í helgan stein. Mér hundleiddist og var skelfilegur fjárfestir, þó það gengi vel, því þá settist ég í einhverjar stjórnir og langaði að skipta mér af. Ég vissi að ef eitthvað ætti að fanga athygli mína yrði það að vera alvöru tækifæri á alþjóðavísu. Við byrjuðum á að skoða að kaupa nokkur fyrirtæki sem væri hægt að fara í útrás með. Það gekk ekki eftir. Þar sem ég hafði alist upp erlendis þótti mér ferðaþjónustan mjög skemmtileg og áhugaverð. Ég var sannfærður um að Ísland ætti mikið inni.“

Hætta eða fara „all-in“

„Það hefur svo auðvitað líka sprungið út meira en maður bjóst við. Fyrst skoðuðum við hótelmarkaðinn eða jafnvel að fjárfesta í Icelandair sem á þessum tíma var í mikilli endurskipulagningu. Icelandair var á þessum tíma dæmigert gamaldags flugfélag líkt og flest rótgrónu evrópsku flugfélögin sem hafa mörg hver misst flugið undanfarin ár í samkeppni við öflug lággjaldafélög.“ Skúli sá þann árangur sem lággjaldaflugfélög höfðu náð annars staðar og taldi hægt að gera mun betur en Icelandair hafði gert.

„Allir litu á mig eins og ég væri eitthvað galinn. Að stofna flugfélag væri eitthvað sem maður gerir ekki. Ég er svo þrjóskur að það varð eiginlega til þess að ég varð enn forvitnari og fannst þetta bara meira spennandi.“ Rekstur WOW air byrjaði síður en svo vel. „Fyrsta sumarið var mun erfiðara en við gerðum ráð fyrir og við töpuðum um 800 miljónum fyrsta sumarið í stað 200-300 miljónum eins og við áætluðum. Þá kemur fyrsta skiptið þar sem við þurftum annaðhvort að loka eða fara „all-in“.  Þá skoðuðum við mjög alvarlega að hætta. Það þurfti að taka þessa grundvallarákvörðun um annaðhvort að demba sér í þetta og setja enn meiri pening í félagið eða hætta.“ Á þessum tímapunkti setti Skúli því hálfan milljarð í viðbót inn í félagið.

„Þetta var síður en svo augljós ákvörðun þarna um haustið 2012. Sem betur fer lét ég slag standa og fer úr því að vera stjórnarformaður yfir í stól forstjóra. Þá vorum við í miklum slag við Iceland Express en það var lykilatriði að ná að taka þá yfir seinna um haustið.“ WOW air var fyrst um sinn í raun ekki lággjaldaflugfélag. Töskur voru til að mynda innifaldar í miðaverðinu.

„Við fengum til okkar fólk með flugreynslu á Íslandi en það hafði aldrei neinn verið í lággjaldastefnunni áður. Iceland Express var ekkert lággjaldaflugfélag. Það var því augljóst að við þyrftum að fara dýpra í þessar pælingar ef við ætluðum að lifa af. Það er áhugavert að fara yfir stöðuna í dag en í raun er heildarfjárfestingin í WOW air mjög lítil miðað við umfang þó að mér og öðrum hafi þótt hún mjög stór á sínum tíma. Það er því mjög ánægjulegt að hitta erlenda fjárfesta og fjárfestingabanka sem eru undrandi á hvað við höfum náð miklum árangri á skömmum tíma með í raun mjög litla fjármögnun miðað við flugfélög erlendis. En ég held að fæstir myndu ráðleggja einhverjum að fara með nánast allt í eitt verkefni – og það flugfélag. Ég skil því mjög vel að fólki fannst þetta galin hugmynd.“

Heltekinn af verkefninu

Myndirðu gera þetta aftur í dag? „Já, ég er farinn að þekkja sjálfan mig. Ef ég verð ástfanginn af einhverju þá ræð ég ekkert við mig, verð heltekinn af verkefninu og vinn í því allan sólarhringinn. Ég hef aldrei sótt um vinnu eða gert ferilskrá. Það er enginn aðskilnaður milli einkalífs og vinnu því fyrir mér er þetta það skemmtilegasta sem ég geri. Ég myndi ekki vilja breyta neinu í þeim efnum. Mér finnst þetta bara svo skemmtilegt. Þetta snýst ekki um peninga þannig séð. Fyrir mér er þetta lífsstíll.“

Skúli viðraði nýlega möguleikann á samstarfi við stóra, erlenda aðila. „Við erum að vinna með öflugum erlendum fjárfestingarbönkum og reiknum með að klára hlutafjáraukningu seinni hluta ársins 2018. Stefnt er að því að fá inn bæði fagfjárfesta svo og „strategíska“ fjárfesta, hvort sem það eru önnur flugfélög eða félög sem gætu hjálpað okkur að sækja inn á nýja markaði. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að á næsta ári starfi 1.400 manns hjá félaginu.

„Ég held að  Jónína Guðmundsdóttir starfsmannastjóri sé Íslandsmeistari í mannaráðningum. Við erum með frábært teymi sem vinnur dag sem nótt við að láta WOW-drauminn rætast og ég dáist að dugnaði þeirra og útsjónarsemi.“ Skúli ætlar að stækka félagið enn frekar. Nú er hins vegar svo komið að félagið á erfitt með að vaxa meira á Íslandi. „Umhverfið á Íslandi er eitt stærsta áhyggjuefni okkar þegar litið er fram á veginn bæði þegar kemur að innviðum landsins svo og hversu fá við erum og því erfitt að ráða fólk í sérhæfð störf. Það er mikilvægt fyrir stjórnvöld að búa svo í haginn að félög á borð við Össur, Marel, CCP eða WOW air flytjist ekki öll úr landi þegar fram líða stundir.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .