Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow Air, segir Ísland í sérstaklega góðri stöðu þegar kemur að því að tengja Bandaríkin og Indland. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er fyrirtækið nú þegar byrjað að selja í ferðir félagsins til Nýju-Delí.

„Það er nákvæmlega kjarni málsins,“ segir Skúli um ástæður þess að félagið hefur tekið þetta skref, en um er að ræða lengstu einstöku flugleið sem íslenskt flugfélag flýgur í áætlunarflugi.

„Stysta flugleiðin frá Indlandi á Austurströnd Bandaríkjanna liggur beint yfir Ísland. Landið er því frá náttúrunnar hendi fullkomin flugmiðstöð (e. hub) fyrir þá flugumferð.“

Skúli segir WOW hafa fengið mjög góðar viðtökur á blaðamannafundinum sem haldinn var í Nýju-Delí á þriðjudaginn. Þá segir hann að félagið sé að skoða aðra áfangastaði í Asíu, bæði á Indlandi og víðar. „Við erum að horfa á fullt af nýjum áfangastöðum og ég reikna með að tilkynna fleiri fyrir árslok.“

Ísland er ekki nafli alheimsins

„Það er mjög mikilvægt að líta ekki á Ísland sem nafla alheimsins,“ segir Skúli sem hyggst ráða sérfræðinga til starfa á Indlandi, en fyrirtækið auglýsti nýlega eftir 100 forriturum eins og Viðskiptablaðið sagði fyrir um hálfum mánuði.

Ráðningarnar á Indlandi segir Skúli „helgast fyrst og fremst af því að Ísland er uppselt og þegar þú leitar að sérhæfðu fólki með sérhæfða reynslu og menntun þá er það oft erfitt á Íslandi. Það er því tækifæri okkur líka að horfa út fyrir landsteinana í þeim efnum. Það er óhjákvæmilegt ef við ætlum að stækka. Við verðum áfram íslenskt fyrirtæki en þurfum að horfa til útlanda.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Vinsæll skemmtistaður í miðbænum kominn í söllu
  • Starfsemi Samherja hefur verið skipt upp í tvö aðskilin félög
  • Hagar kynna nýjungar á nýju rekstrarári
  • Breskt greiningarfyrirtæki spáir hækkandi álverði næstu fimm árin
  • Skoðuð eru áhrif ákvörðunar Bandaríkjaforseta um kjarnorkusamning við Íran hér á landi
  • Fjallað er um nýlega skoðanakönnun í borginni
  • Þórður Magnússon í Eyri Invest er í ítarlegu viðtali
  • Svipmyndum frá fundum Landsvirkjunnar og Samáls
  • Fyrirtæki býður upp á nýjar lausnir í persónuvernd
  • Rætt er við nýjan upplýsingafulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar
  • Óðinn skrifar um utanríkisviðskipti
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um klofninginn á vinstri vængnum