*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 16. maí 2018 19:17

Skúli: „Ísland er uppselt“

Wow air ræður sérfræðinga á Indlandi, en Skúli Mogensen segir stystu flugleiðina frá Bandaríkjunum til Indlands liggja um Ísland.

Ritstjórn
Forstjóri Wow air segir ástæðu Indlandsflugs félagsins vera að stysta flugleiðin þangað frá austurströnd Bandaríkjanna liggi yfir Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow Air, segir Ísland í sérstaklega góðri stöðu þegar kemur að því að tengja Bandaríkin og Indland. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er fyrirtækið nú þegar byrjað að selja í ferðir félagsins til Nýju-Delí.

„Það er nákvæmlega kjarni málsins,“ segir Skúli um ástæður þess að félagið hefur tekið þetta skref, en um er að ræða lengstu einstöku flugleið sem íslenskt flugfélag flýgur í áætlunarflugi.

„Stysta flugleiðin frá Indlandi á Austurströnd Bandaríkjanna liggur beint yfir Ísland. Landið er því frá náttúrunnar hendi fullkomin flugmiðstöð (e. hub) fyrir þá flugumferð.“

Skúli segir WOW hafa fengið mjög góðar viðtökur á blaðamannafundinum sem haldinn var í Nýju-Delí á þriðjudaginn. Þá segir hann að félagið sé að skoða aðra áfangastaði í Asíu, bæði á Indlandi og víðar. „Við erum að horfa á fullt af nýjum áfangastöðum og ég reikna með að tilkynna fleiri fyrir árslok.“

Ísland er ekki nafli alheimsins

„Það er mjög mikilvægt að líta ekki á Ísland sem nafla alheimsins,“ segir Skúli sem hyggst ráða sérfræðinga til starfa á Indlandi, en fyrirtækið auglýsti nýlega eftir 100 forriturum eins og Viðskiptablaðið sagði fyrir um hálfum mánuði.

Ráðningarnar á Indlandi segir Skúli „helgast fyrst og fremst af því að Ísland er uppselt og þegar þú leitar að sérhæfðu fólki með sérhæfða reynslu og menntun þá er það oft erfitt á Íslandi. Það er því tækifæri okkur líka að horfa út fyrir landsteinana í þeim efnum. Það er óhjákvæmilegt ef við ætlum að stækka. Við verðum áfram íslenskt fyrirtæki en þurfum að horfa til útlanda.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Vinsæll skemmtistaður í miðbænum kominn í söllu
 • Starfsemi Samherja hefur verið skipt upp í tvö aðskilin félög
 • Hagar kynna nýjungar á nýju rekstrarári
 • Breskt greiningarfyrirtæki spáir hækkandi álverði næstu fimm árin
 • Skoðuð eru áhrif ákvörðunar Bandaríkjaforseta um kjarnorkusamning við Íran hér á landi
 • Fjallað er um nýlega skoðanakönnun í borginni
 • Þórður Magnússon í Eyri Invest er í ítarlegu viðtali
 • Svipmyndum frá fundum Landsvirkjunnar og Samáls
 • Fyrirtæki býður upp á nýjar lausnir í persónuvernd
 • Rætt er við nýjan upplýsingafulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar
 • Óðinn skrifar um utanríkisviðskipti
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um klofninginn á vinstri vængnum
Stikkorð: Skúli Mogensen Indland Wow air flugleið