WOW air flutti 107 þúsund farþega til og frá landinu í ágúst eða um 45% fleiri farþega en í ágúst árið 2014. Sætanýting WOW air í ágúst var 95%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar kemur fram að framboðnum sætiskílómetrum hafi fjölgað um 65% í ágúst frá því á sama tíma í fyrra. Í ágúst voru 25% farþega WOW air Íslendingar.

Í júní, júlí og ágúst flutti WOW air um 295 þúsund farþega en það er 45% fjölgun farþega á sama tímabili frá árinu áður. Félagið flaug í sumar til 20 áfangastaða bæði í Evrópu og Norður-Ameríku.

„Þetta er langbesta sumar WOW air frá stofnun félagsins. Í júlí síðastliðnum flutti WOW air fleiri farþega heldur en allt fyrsta árið okkar 2012 og aldrei hafi verið fluttir jafnmargir farþegar í einum mánuði og nú í ágúst. Þessar frábæru móttökur eru framar björtustu vonum og fyrir það erum við þakklát“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri Wow air.