Ragnar Þórir Guðgeirsson, stjórnarformaður MP banka, segir fjóra hópa fjárfesta hafa sýnt áhuga á því að taka þátt í hlutafjáraukningunni.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að MP banka verður skipt upp í tvennt, viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Munu núverandi eigendur taka yfir fjárfestingahlutann og nýir eigendur koma að viðskiptabankanum. Stefnt er að því að ná 3-4,5 milljörðum króna inn nýtt eigið fé. Þeir sem leggja til það hlutafé munu eignast bankann að mestu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fer fjárfestirinn Skúli Mogensen fyrir einum þeirra. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að sá hópur hafi sýnt einna mestan áhuga. Skúli vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Ragnar vill ekki segja hverjir hóparnir fjórir eru. „Við vorum með þrjá kosti í desember. Við vorum síðan búnir að loka á fjórða valkostinn en hann hefur opnast aftur. Ég held að það væri þó algjört ábyrgðarleysi að skýra frá því hverjir þeir eru á þessu stigi málsins.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .