Skúli Mogensen
Skúli Mogensen

Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi Wow air, segir Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, vernda hagsmuni Icelandair. Hann sagði í viðtali við RÚV í morgun ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að fresta skuli ákvörðun um úthlutun brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli setja áform WOW Air um flug til Norður-Ameríku í uppnám. Hann benti í viðtalinu á að tíminn sé að renna út eigi Wow air að geta staðið við áform sín um að hefja flug til Ameríku næsta sumar. Verði ekki af því útilokar hann ekki að höfða skaðabótamál gegn Isavia.

Fram kemur í umfjöllun RÚV um málið að forsvarsmenn Isavia afþökkuðu boð um að koma í morgunþátt RÚV með Skúla. Þeir segjast hafa áfrýjað ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, þar sem þeir hafi ekki valdheimildir til að úthluta afgreiðslutíma. Það sé á könnu óháðs samræmingarstjóra og fari hann eftir evrópskri reglugerð.

Skúli sagði:

„Það er rétt að alla jafna eru afgreiðslutímar settir í alþjóðlegan banka, eða svona úthlutunarferli, sem fer í eðlilegan farveg og flestir flugvellir eru þátttakendur í [...] Hinsvegar hefur ESA og Samkeppniseftirlitið, og það eru fordæmi fyrir þessu í öðrum löndum líka, komist að mjög skýrri niðurstöðu; að ef það er þjóðhagslega hagkvæmt eða ef innlend samkeppnislög kveða svo á um þá beri og geti yfirvöld tekið afgreiðslutíma, eða úthlutað nýjum afgreiðslutíma, til nýrra flugrekstraraðila, til þess að tryggja samkeppni."