Fjárfestingafélagið Títan, sem er í eigu Skúla Mogensen, hefur bæst í hóp stærstu hluthafa Skýrr með liðlega 5% hlut. Samhliða þessu er fyrirhugað að Skúli setjist í stjórn Skýrr á næsta aðalfundi félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skýrr. Ekki kemur fram hversu stóran hlut Títan hefur keypt í félaginu eða fyrir hvað mikið. Í Morgunblaðinu í dag kemur þó fram að Títan hafi eignast um 5% hlut í Skýrr. Framtakssjóður Íslands er sem fyrr stærsti eigandi Skýrr með um 75% hlut.

„Skúli hefur á undanförnum misserum sannað sig sem þungavigtarmaður í íslensku viðskiptalífi. Hann hefur tekið þátt í að stofna og fjárfesta í fjölda fyrirtækja, bæði hér á landi og erlendis. Jafnframt hefur Skúli yfirgripsmikla reynslu af þekkingariðnaði, sem spannar yfir tvo áratugi. Það er því mikill styrkur í aðkomu hans að Skýrr," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr, í tilkynningunni.

Skúli Mogensen segir í tilkynningunni að markmið Títan sé að taka þátt í endurreisn atvinnulífsins á Íslandi með fjárfestingum í þekkingar- og nýsköpunarfélögum með mikla vaxtarmöguleika.

„Fjárfestingin í Skýrr smellpassar við þá stefnu okkar. Skýrr stendur vissulega á gömlum grunni, en hefur tekið grundvallarbreytingum og vaxið hratt undanfarin tvö ár gegnum sameiningar á átta góðum fyrirtækjum bæði hér heima og erlendis. Fyrirtækið er í dag með víðtæka starfsemi í fjórum löndum og er afar áhugaverður fjárfestingakostur. Það verður einnig spennandi verkefni að sitja þarna í stjórn,“ segir Skúli í tilkynningunni.

Á meðal annarra fyrirtækja sem Títan hefur fjárfest í eru MP banki, WOW air, Carbon Recycling International, Securitas, CAOZ, Tindar Verðbréf, Thor Data Center og DataMarket.

Skúli Mogensen, kynnir Wow Air, á blaðamannafundir þann 23.11.11
Skúli Mogensen, kynnir Wow Air, á blaðamannafundir þann 23.11.11
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Skúli Mogensen.