„Ég starfaði í rekstri í 20 ár og mig var farið að klæja í fingurna að taka aftur þátt.“

Þetta segir Skúli Mogensen, sem nú hefur tekið við starfi forstjóra Wow air, í samtali við Viðskiptablaðið. Skúli, sem er stærsti eigandi félagsins, hefur hingað til verið stjórnarformaður en fjárfestingafélags hans, Títan, er stærsti eigandi félagsins. Títan er jafnframt stærsti eigandi MP Banka.

„Það er mikil stemning sem fylgir því að hafa dagleg afskipti af rekstri og ég var farinn að sakna þess,“ segir Skúli í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta er spennandi félag og ég vil sinna því af meiri krafti sjálfur. Við munum kynna sumaráætlun okkar fljótlega, bæta við nýjum áfangastöðum og bæta tíðni á aðra.

Ekki ágreiningur á milli Skúla og Baldurs Odds

Skúli tekur við starfinu af Baldri Oddi Baldurssyni, sem hefur verið náinn samstarfsmaður Skúla um árabil. Baldur Oddur var forstjóri Wow air frá stofnun á síðasta ári en auk þess hefur hann jafnframt starfað fyrir Títan.

Aðspurður segir Skúli að starfslok Baldurs Odds komi til í mesta bróðerni.

„Baldur Oddur hefur staðið sig mjög vel. Við höfum unnið vel saman og ég óska honum alls hins besta,“ segir Skúli. Hann neitar því að ágreiningur hafi verið á milli þeirra um rekstur félagsins þó að samstarfi þeirra sé nú lokið.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir stundu mun Títan jafnframt fjármagna 500 milljóna króna hlutafjáraukningu í Wow air. Aðspurður segir Skúli hingað til hafi reksturinn gengið vel og hlutafjáraukningunni sé ætlað að styrkja félagið til muna.

Blaðamaður veltir því upp hvort Skúli sé að bjarga félaginu fyrir horn með umræddri innspýtingu en hann segir svo ekki vera.

„Ég hef lært það í gegnum tíðina að henda ekki góðum peningum á eftir vondum;“ svarar Skúli að bragði.

„Ég myndi ekki setja 500 milljónir í félagið nema ég hefði fulla trú á því.“