Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri flugfélagsins WOW Air sagði í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun að hann tæki undir málflutning Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu og Andra Snæs Magnasonar rithöfundar.

Skúli talaði um að ekki væri þörf á frekari virkjunum eða stóriðju hérlendis. Hann segir að það hafi verið skiljanlegt að landsmenn hafi farið stóriðjuleiðina fyrir þessum fimmtíu árum. Nú væri þó góð ástæða til þess að fara aðrar leiðir en stóriðju.

Þá segir hann Íslendinga búa við fjölbreytt atvinnulíf, og að atvinnuleysi væri í lágmarki. Skúla segist sér finnast skynsamlegra að reyna að halda fastar í íslensk nýsköpunarfyrirtæki.

„Mér þætti nær að ígrunda hvernig við gætum haldið í mikið af þessum frábæru fyrirtækjum sem hafa jafnvel verið að glýja land, og af hverju þau eru að flýja land,“ segir Skúli í viðtalinu. „Þá er ég að tala um innlend nýsköpunarfyrirtæki frekar heldur en að laða til okkar og niðurgreiða erlenda stóriðju.“