„Ég hélt í einfeldni minni að tilgangurinn væri að vernda hagsmuni neytenda og stuðla að samkeppni í öllum greinum en ekki að viðhalda hér einokun,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri og aðaleigandi Wow air. Flugfélagið hefur ákveðið að hætta við fyrirhugað flug til Norður-Ameríku þar sem Isavia hefur ekki úthlutað flugfélaginu nauðsynlega brottfarartíma fyrir flugið í Keflavík. Wow air ætlar af þessum sökum sömuleiðis að hætta við fyrirhugað flug til Stokkhólms í Svíþjóð í sumar.

„Það er grátlegt að neyðast til þess að fresta öllum stækkunaráformum okkar þar sem Isavia hefur kosið að fara ekki eftir skýrum tilmælum Samkeppniseftirlitsins ,“ segir Skúli í tilkynningu sem Wow air hefur sent frá sér. Hann telur með ólíkindum að Áfrýjunarnefnd samkeppnismála skuli nota það sem afsökun fyrir því að fresta þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að það muni koma Icelandair illa ef þeir missa brottfarartíma núna fyrir sumarið. „Það tapa allir á þessari niðurstöðu, neytendur, ríkið, Isavia og íslenska ferðaþjónustan í heild sinni,“ segir Skúli.

Fram kemur í tilkynningu Wow air að forsaga málsins sé sú að Samkeppniseftirlitið úrskurðaði þann 1. nóvember á síðasta ári að Isavia, sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, beri að úthluta brottfarartímum á Keflavíkurflugvelli til WOW air. Félagið hefur sagt brottfarartímana vera nauðsynlega til að geta hafið flug til Norður-Ameríku í samkeppni við Icelandair. Isavia og Icelandair kærðu hins vegar þessa ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem tók þá ákvörðun 23. janúar að fresta þessari úthlutun þar til að endanlegur úrskurður nefndarinnar lægi fyrir í málinu.