Skúli Mogensen, fjárfestir, segir Ísland standa þrátt fyrir allt mun betur en mörg ríki Evrópu meðal annars þegar horft er til atvinnuleysis. Sjálfsagt sé að kanna stöðu Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið við núverandi aðstæður en hann hefði viljað nálgast málið á annan hátt.

„Mér fannst umræðan í vetur vera í þá átt að af því okkur skorti eigin framtíðarsýn og markmið þá átti innganga í Evrópusambandi að leysa vandamálið. Við eigum sjálf sem þjóð að mynda okkur sterka framtíðarsýn, sem við trúum á og viljum vinna samkvæmt. Út frá þeim forsendum eigum við svo að taka ákvörðun hvort við viljum fara inn í bandalög þjóða eða ekki,“ segir Skúli í viðtali við Viðskiptablaðið. „Á meðan við erum ekki búin að skilgreina eigin markmið og framtíðarsýn vitum við í raun ekki hvað við viljum fá út úr viðræðunum. Þar af leiðandi verður niðurstaðan tilviljunarkennd. Á meðan við erum ekki með okkar á hreinu er erfitt að vita hvað við viljum fá út úr samningnum.“

Hann segir inngöngu í Evrópusambandið til að leysa krónuvandann ekki vera rétta forsendu. „Krónan er að draga okkur upp úr þessum erfiðleikum meira en nokkuð annað. Ég held að krónan verð veik næstu árin. Ég er hins vegar sammála því að til langs tíma sé æskilegra að hafa minni sveiflur og meira traust á gjaldmiðlinum. Ég held að það sé hægt að koma því á án þess að ganga í Evrópusambandið.“