*

mánudagur, 13. júlí 2020
Fólk 13. ágúst 2019 14:00

Skúli nýr framkvæmdastjóri Kolibri

Skúli Valberg Ólafsson, núverandi formaður stjórnar Kolibri, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Skúli Valberg Ólafsson, núverandi formaður stjórnar Kolibri, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og tekur hann við starfinu af Ólafi Erni Nielsen þann 1. september næstkomandi. Skúli býr yfir mikilli reynslu af störfum í upplýsingatækni, fjármálum og nýsköpun. Hann hefur meðal annars starfað sem stjórnandi hjá EJS, Oz.Com, Straumi-Burðarás, Raiffeisen Bank í Austurríki, Beringer Finance og Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð. Þá hefur Skúli verið ráðgjafi fjölda fyrirtækja í breytingarferlum, fjármögnun og nýsköpun. 

Skúli hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, bæði á Íslandi og erlendis og má þar nefna CCP, Opin Kerfi Group, Klakka, Símann, Skipti, Florealis og RIFF meðal annara. Skúli er með gráðu í iðnaðar- og kerfisverkfræði frá University of Florida og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Þá leggur hann stund á framhaldsnám í stafrænum viðskiptum. 

Skúli Valberg Ólafsson, framkvæmdastjóri Kolibri: „Við öll hjá Kolibri þökkum Ólafi Erni fyrir frábært samstarf og hyggjum á áframhaldandi samstarf við hann á nýjum vettvangi. Kolibri er mjög framsækið fyrirtæki í stafrænum lausnum sem leggur áherslu á nýjustu aðferðafræði í rekstri og verkefnastjórn. Við gegnum stóru hlutverki í stafrænivæðingu ýmissa íslenskra fyrirtækja og stofnana, og það er sérstaklega ánægjulegt að ganga til liðs við þennan framsækna hóp sem samanstendur af góðri blöndu af ungum og þaulreyndum sérfræðingum. Við eigum það sameiginlegt að huga í ríkum mæli að framförum í lífi, leik og starfi og því á ég sterkan samhljóm með Kolibri þar sem hlutirnir snúast um að gera stöðugt betur.“