Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow air, hitti Pálma Haraldsson, eiganda Iceland Express, í fyrsta skipti maður á mann í þarsíðustu viku. Síðastliðinn þriðjudag var síðan tilkynnt að Skúli hefði keypt rekstur Ísland Express, rekstrarfélag Iceland Express.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um stöðu félaganna tveggja og samkeppnina þeirra á milli. Það að Skúli hafi keypt félagið af Pálma kemur í raun ekki á óvart. Þó að þeir Pálmi og Skúli hafi ekki hist fyrr en nýlega höfðu þeir áður átt í samskiptum í gegnum milliliði þar sem Pálmi bauð Skúla félagið til sölu, eins og áður hefur komið fram í Viðskiptablaðinu. Eitthvað virðist Pálmi hafa slegið af verðinu í þetta sinn en hvorugur þeirra vill þó gefa upp hversu mikið Skúli greiddi fyrir rekstur Iceland Express.

Nú hefst vinna við að vinda ofan af rekstri Ísland Express, m.a. að loka skrifstofu félagsins, semja við fasteignaeiganda og loks tékkneska flugfélagið Holidays Czech Airlines (CSA) um skil á þeim tveimur Airbus A320 vélum sem Iceland Express var með í leigu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins skuldar félagið lítið fyrir utan skuldir við Pálma (eða félög í hans eigu) auk þess sem það er samningsbundið um húsaleigu og leigu á fyrrnefndum flugvélum. Það getur þó reynst afar dýrt að skila vélum fyrir lok umsamins leigutíma. Samningurinn um leigu á vélunum var gerður í miklu flýti í fyrrahaust þegar öllum flugvélamiðlurum mátti vera ljóst að Iceland Express var í örvæntingafullri leit að flugvélum.

Nánar er fjallað um málefni Wow air og Iceland Express í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.