Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, stefnir að því opna hótel á Ásbrú í Keflavík í ágúst. Hið nýja hótel fær heitið ABC Hotel og verður með 67 herbergjum. Hótelið, sem stendur við Keilisbraut 747 á Ásbrú, verður alfarið sjálfstýrt þar sem gestir innrita sig sjálfir og fá aðgang að herbergi sínu með lásakóða. Víkurfréttir greina frá.

„Þetta er bygging sem ég gerði alfarið upp á sínum tíma og var notuð fyrir erlendu flugmenn WOW air en hefur núna verið í skammtímaleigu,“ er haft eftir Skúla.

Skúli rak áður hótelið Base Hotel á Valhallarbraut 756 á Ásbrú, skammt frá nýja hótelinu. Base Hotel, sem opnaði haustið 2016, var rekið af félaginu TF HOT ehf., í eigu Skúla, en fasteign hótelsins var í eigu annars félags í hans eigu, TF KEF ehf. Fyrrnefnda félagið, TF HOT, varð gjaldþrota í byrjun síðasta árs og skiptum á þrotabúinu lauk í ágúst sama ár . Lýstar kröfur námu 40 milljónum króna en engar eignir fundust í búinu.

Skúli segir við Víkurfréttir að hann hafi breytt Base Hotel í litlar íbúðir sem hafa verið til sölu. Alls eru þar 80 íbúðir en hann stefnir að því að setja síðustu 40 í sölu í haust. Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun síðasta árs að TF KEF ehf. hafi einnig verið með íbúðir að Lindarbraut 635 á Ásbrú til sölu.

Greint var frá því í maí síðastliðnum að Skúli ætli að selja eignarlóðir í Hvammsvík í Kjósarhreppi. Skúli og fjölskylda hans keyptu lóðirnar Hvamm og Hvammsvík árið 2011. Kjósarhreppur auglýsti nýlega að fyrirhugað væri að skilgreina 30 frístundalóðir á svæðinu, þar af tólf með fram sjónum. Leyfilegt verður að byggja allt að 300 fermetra heilsárshús á lóðunum. Skúli stefnir að því að opna sjóböð á svæðinu síðar í ár.

Vill sjá lægri verð hjá Play

Hann segir að skemmtilegt hafi verið að fylgjast með flugfélaginu Play fara á flug. Að koma af stað nýju flugfélagi sé gríðarlegt afrek, sér í lagi að sækja 8 milljarða króna áður fyrir fyrsta áætlunarflugið.

„Þarna er mikið af góðu fólki sem á heiður skilið fyrir að koma félaginu á þennan stað eftir langa og stranga fæðingu. Byggt á fyrri reynslu hefði ég reyndar viljað sjá þau fara mun grimmar í lággjalda stefnuna til að standast aukna samkeppni úr öllum áttum en ég óska þeim alls hins besta og bíð spenntur eftir að sjá framhaldið,“ segir Skúli í samtali við Víkurfréttir.