Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri Wow air, hefur háleit markmið fyrir félag sitt eins og fram kemur í umfjöllun Viðskiptablaðsins þar sem fjallar er um flugmarkaðinn á Íslandi eftir að Wow air keypti rekstur Iceland Express.

Í frétt Viðskiptablaðsins er vitnað til orða Skúla á nýlegum starfsmannafundi um að stefnan væri að „drepa Icelandair“ fyrir árið 2015 en að sama skapi hefði Skúli talað með svipuðum hætti í samtölum við fleiri aðila. Þá fjallaði Viðskiptablaðið um þá möguleika í ljósi þess hvernig viðskiptamódel þessara tveggja félaga er samansett.

Skúli hefur gert eftirfarandi athugasemd við fréttina sem sjálfsagt er að birta:

„Í frétt Viðskiptablaðsins í dag kom fram að ég ætli mér að drepa Icelandair fyrir 2015. Þetta átti ég að hafa sagt að væri markmið okkar á starfsmannafundi Wow air. Það er fráleitt að ég hafi sagt eitthvað slíkt enda nokkuð ljóst að það er með öllu óraunhæft og væri í besta falli kjánalegt að setja slíkt markmið fram. Það er hinsvegar rétt að við höfum háleit markmið og ætlum okkur stóra hluti í áframhaldandi uppbyggingu á íslenskri ferðaþjónustu. Það verður án efa áfram hörð samkeppni á þessum markaði eins og öðrum og því ber að fagna.“

Til viðbótar við þetta má bæta við að í frétt Viðskiptablaðsins kom fram Wow air þyrfti í raun ekki að ná nema um 4-6% markaðshlutdeild af Icelandair til að lifa sómasamlegu lífi sem félag. Hvort það gerist mun tíminn einn leiða í ljós.