*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 7. október 2017 11:09

Skúli segir Icelandair með úrelt módel

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, segir gömlum flugfélögum hafa gengið erfiðlega að breytast í lággjaldafélög.

Gunnar Dofri Ólafsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Icelandair tilkynnti á miðvikudaginn að félagið muni framvegis bjóða farþegum að fljúga með félaginu án innritaðs farangurs, sem hingað til hefur verið innifalinn í verðinu. Í tilkynningunni segir að þeir sem bóka Economy Light munu njóta sömu þjónustu um borð og aðrir farþegar.

Tíu kílóa handfarangur verður þar að auki innifalinn í fargjaldinu eins og öðru fargjaldi. Breytingin markar ákveðna stefnubreytingu hjá félaginu, sem hingað til hefur ekki viljað bjóða upp á þennan valkost. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, talaði á uppgjörsfundi félagsins í febrúar um „me, me, me-kynslóðina,“ sem hefði annað neyslumynstur en fyrri kynslóðir.

Breytingin gæti verið svar flugfélagsins við ákalli neytenda um lægri flugfargjöld. Félagið viðraði hugmyndir í þessa veru, það er að bjóða sérfargjald, um svipað leyti. Þar kom fram að markmið breytinganna væri að ná til nýrra viðskiptavina, auka sýnileika félagsins í leitarvélum gagnvart tilteknum markhópum og breikka tekjugrunn félagsins. 

 Economy Light er í grunninn svipað Wow Basic sem Wow hefur boðið upp á undanfarin ár. „Ég held að Icelandair séu búið að átta sig á því að þau eru með úrelt viðskiptamódel sem hefur ekki verið að virka,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri Wow air. Hann bendir á að vöxtur félaganna hafi verið ólíkur undanfarið því farþegum Wow hafi fjölgað mun meira en farþegum Icelandair.

„Við höfum á næsta ári á sex árum náð sama farþegafjölda og Icelandair og fengið frábærar viðtökur sem við erum þakklát fyrir. Ég er ekki hissa á að þeir skuli núna elta okkur,“ segir Skúli. Hann á ekki von á að samkeppnin við Icelandair verði harðari en hún hefur verið.

„Alls ekki. Það hefur aldrei gengið vel þegar gömlu flugfélögin ætla sér að verða lággjaldafélög. Þú sérð þetta á flugfélögunum í Evrópu, þeim hefur öllum mistekist það,“ segir Skúli. Hann vísar til orða Michaels O’Leary, forstjóra Ryanair: „Eftir fimm ár hætta menn að tala um lággjaldafélög því að ef þú ert ekki lággjaldafélag, þá ertu ekki til lengur,“ segir Skúli Mogensen.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.