*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 23. janúar 2020 19:04

Skúli selur íbúðir á Ásbrú

Skúli Mogensen hefur til sölu íbúðir á Ásbrú í Reykjanesbæ. Íbúðirnar eru í eigu sama félags og á hótelið sem lokaði í dag.

Ingvar Haraldsson
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air.
Haraldur Guðjónsson

TF KEF ehf., fasteignafélag í eigu Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra og eiganda Wow air, hefur til sölu íbúðir að Lindarbraut 635 Á Ásbrú í Reykjanesbæ. 

Búið er að þinglýsa 8 kaupsamningum í húsinu en alls eru 28 íbúðir í byggingunni sem allar hafa verið í eigu TF KEF ehf. Fasteignasalan M2 hefur séð um sölu á íbúðunum en sex íbúðir í húsinu eru á sölu á fasteignavef Mbl.is. Flestar fóru á sölu í október og þar af eru þrjár seldar. Í október var einnig sett í loftið sérstök sölusíða fyrir heimili Skúla við Hrólfsskálavör á Seltjarnarnesi.

TF KEF á einnig húsnæði Base Hotel sem lokaði í dag líkt og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá. Base Hotel opnaði sumarið 2016. Rekstur hótelsins hefur verið inn í félaginu TF HOT, einnig í eigu Skúla, sem skilaði 15 milljóna króna hagnaði árið 2018.

Sjá einnig: Sérstök sölusíða fyrir hús Skúla

Samanlagt fasteignamat íbúðanna að Lindarbraut 635 er um 440 milljónir en samanlagt brunabótamat 590 milljónir króna. Íbúðir í húsinu voru meðal annars nýttar fyrir starfsmenn Wow air.

Skúli auglýsti fasteignir sínar í Reykjanesbæ, þar með talið Lindarbraut 635 og Base Hotel til sölu árið 2017 og vonaðist þá til að fá um þrjá milljarða króna fyrir fasteignirnar.

Sjá einnig: Hóteli Skúla á Ásbrú lokað

Ekki voru neinar eignir til að kyrrsetja í fjárfestingafélaginu Títan, móðurfélagi Wow air, þegar þrotabú Wow fór fram á kyrrsetningu í félaginu nýverið að því er Morgunblaðið greindi frá. Allar eignir Títan voru veðsettar fyrir skuldum við Arion banka.

Skúli tók lán hjá Arion banka til að taka þátt í skuldabréfaútboði Wow air haustið 2018. Meðal eigna sem voru veðsettar voru fasteignir í eigu TF KEF. Skuldir TF KEF við lánastofnanir hækkuðu úr 900 milljónum í 1,4 milljarða króna milli áranna 2017 og 2018.

Stikkorð: Skúli Mogensen Wow air TF HOT TF KEF Base Hotel