Títan fjárfestingarfélag, í eigu Skúla Mogensen, hefur aukið hlutafé sitt í WOW air um 500 milljónir sem hafa nú þegar verið greiddar inn í félagið.  Hlutaféð er fengið að láni frá Skúla sjálfum, að því er segir í tilkynningu frá WOW air.

Heildarfjárfesting Títan í WOW air er þar með orðin 1.500 milljónir frá stofnun WOW air 2011.  Í tilkynningu frá WOW air segir að hlutafjáraukningin muni styðja við áframhaldandi vöxt WOW air og ekki síst sókn félagsins inn á Norður-Ameríku markað. Næsta sumar mun WOW air fljúga til 17 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Tveir áfangastaðir bætast við leiðarkerfi félagsins frá því síðasta sumar.

Starfsmannafjöldi WOW air hefur tvöfaldast síðan síðastliðið sumar og frá með næsta mánuði mun fast- og lausráðið starfsfólk nema um 170 manns. Félagið hefur stækkað jafnt og þétt frá fyrsta flugi þess í maí 2012 en það ár flaug félagið með um 90 þúsund farþega, núna í ár verður farþegafjöldi rúmlega 400 þúsund og gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti á næsta ári.

„Með tilkomu flugrekstrarleyfis WOW air opnast margvíslegir nýir möguleikar fyrir okkur til að vaxa frekar og tryggja að hér ríki heilbrigð samkeppni í flugi til og frá Íslandi.  Ég er afar stoltur og ánægður með hvernig til hefur tekist og þær frábæru móttökur sem WOW air hefur fengið hjá almenningi sem og erlendum ferðamönnum. Hlutafjáraukningu verður fyrst og fremst varið í að styrkja stoðir flugfélagsins og hefja sókn á Norður-Ameríku markað“ segir Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air.

Títan fjárfestingarfélag og WOW air eru hvort tveggja alfarið í eigu Skúla Mogensen.  Títan fjárfestingarfélag, WOW air og Skúli Mogensen hafa engar vaxtaberandi skuldir og eini lánveitandi Títan og WOW air er Skúli Mogensen sjálfur.