Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, hefur aukið hlutafé fyrirtækisins á ný með 500 milljóna króna framlagi. Skúli, eða öllu heldur fjárfestingafélag hans Títan, hefur þar með aukið hlutafé félagsins um einn milljarð króna á um hálfu ári.

Haldinn var hluthafafundur á gamlársdag, þann 31.12.12, þar sem samþykkt var að auka hlutafé félagsins um rúmar 20 milljónir króna á genginu 24,9 sem þýðir að Skúli setti inn um hálfan milljarða króna. Tilkynnt var um hlutafjáraukninguna til ríkisskattstjóra þann 1. febrúar sl.

Eftirhlutafjáraukninguna er hlutafé félagsins nú um 40,6 milljónir króna. Miðað við gengið 24,9 er félagið því metið á um einn milljarð króna. Í lok október sl. keypti Wow air allan rekstur Iceland Express sem fram að því var í eigu Pálma Haraldssonar.

„Það kostar tölvuert að búa til alvöru félag og eins og menn vita þá þarf flugrekstur nokkuð meira en önnur hefðbundin fyrirtæki á sínum fyrstu skrefum,“ segir Skúli Mogensen í samtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um nýjustu hlutafjáraukningu félagsins.

„Félagið mun á þessu ári velta rúmlega 12 milljörðum króna og að öllu óbreyttu munum við fljúga með um 450 þúsund farþega. Ég hef áður sagt að ég muni styðja við áframhaldandi vöxt Wow air og geri ráð fyrir því að setja enn meira fjármagn inn í fyrirtækið.“

Þá segir Skúli að horfurnar fyrir sumarið séu góðar, bókunarstaðan sé góð og í næsta mánuði muni félagið fá fjórar Airbus vélar afhentar sem munu nýtast félaginu næstu ár.

„Við erum nú að undirbúa það að sækja um flugrekstrarleyfi, sem einnig kallar á aukið fjármagn,“ segir Skúli.

„Ég á von á því að það klárist á þessu ári þannig að í framhaldi af því munum við reka okkar eigin vélar sem fljúga undir merkjum Wow air.

Í lok ágúst síðastliðin var tilkynnt að Skúli myndi taka við starfi forstjóra af nánum samstarfsmanni sínum til margra ára, Baldri Oddi Baldurssyni. Þá kom einnig fram að Skúli myndi fjármagna 500 milljóna króna hlutafjáraukningu í Wow air í gegnum fjárfestingafélag sitt Títan.

„Ég hef lært það í gegnum tíðina að henda ekki góðum peningum á eftir vondum;“ sagði Skúli þá í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um það hvort hann væri að bjarga félaginu fyrir horn. „Ég myndi ekki setja 500 milljónir í félagið nema ég hefði fulla trú á því.“

Blaðamaður Viðskiptablaðsins rifjar þetta upp fyrir Skúla í dag og spyr hversu oft hann geti sett inn 500 milljónir til að styðja við rekstur félagsins?

„Nokkuð oft,“ svarar Skúli að bragði.