Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, segir að nú sé unnið hörðum höndum að því að fá kröfuhafa Wow air sem alls hafi lánað félaginu um 12 milljarða króna til að breyta þeim í hlutafé í samtali við Vísi.is.

Skuldabréfaeigendur Wow air, hafa þegar samþykkt að breyta skuldum sínum í hlutafé og unnið sé að því að fá samþykki annarra kröfuhafa. Takist það lækki vaxtaberandi skuldir flugfélagsins um 70-80%.

„Staðan er nokkuð góð eftir fréttir dagsins þar sem við vorum að tilkynna að skuldabréfaeigendur hafa samþykkt að breyta kröfum sínum í hlutabréf í félaginu. Þar með erum við að styrkja félagið allverulega þannig að það er jákvætt skref í rétta átt,“ hefur Vísir eftir Skúla.

Léttir en staðan enn þrögn

Með þessu létti verulega á skuldum flugfélagsins. Skúli segir við RÚV að ljóst að skuldir Wow air hafi gert viðræður við Indigo Partners þyngri í vöfum. „Já, þetta var tvímælalaust atriði sem var að þvælast fyrir.“

Engu síður sé staða Wow enn þröng og vinna þurfi hratt. „Stundum eru hlutirnir þannig að þeir þurfa að vera komnir í ákveðinn farveg til þess að það sé hreinlega hægt að taka fast á málum og núna var staða félags orðin mjög þröng, og er mjög þröng, það liggur alveg fyrir og þar af leiðandi þurfum við að vinna hratt. Það er öllum ljóst að það þarf að gera þetta hratt. Þannig að kannski núna eru aðstæður þannig að þetta er orðið gerlegt,“ segir Skúli við RÚV.

Nú vinna Arctica Finance og Arion banka að því að safna auknu hlutafé til að fjármagna rekstur Wow, en miðað hefur verið við að safna um fimm milljörðum króna fyrir 51% hlut í Wow air. Skúli segir viðræður standa yfir við innlenda og erlendra fjárfesta.