Athafnamaðurinn Skúli Mogensen hyggst selja eignarlóðir í Hvammsvík í Kjósarhreppi þar sem leyft verður að byggja vegleg heilsárshús. Morgunblaðið greinir frá.

Skúli og fjölskylda hans keyptu lóðirnar Hvamm og Hvammsvík árið 2011 og í síðustu viku auglýsti Kjósarhreppur að fyrirhugað væri að skilgreina 30 frístundalóðir á svæðinu, þar af tólf með fram sjónum. Leyfilegt verður að byggja allt að 300 fermetra heilsárshús á lóðunum og býst Skúli við ágætis eftirspurn eftir eignunum.

Upphaflega voru lóðirnar keyptar til þess að opna þar sjóböð og reiknað er með að þau verði opnuð síðar á þessu ári. Nýja byggðin mun þó ekki koma til með að skyggja á sjóböðin og verður í einhverri fjarlægð frá þeim. Þá er einnig fyrirhugað að opna þar aðra þjónustu, líkt og veitingarekstur og aðra afþreyingu.