Tækifæri Wow air til frekari vaxtar liggja í flugleiðum til Norður Ameríku og Asíu.

Þetta segir Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, í viðtali við flugtímaritið Routes News . Aðspurður um það  hvar hann sjái fyrir sér fjölgun ferðamanna og tækifæri á nýjum mörkuðum segir Skúli að enn sé mögulegt að fjölga farþegum frá Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Skandinavíu.

„Stóru tækifærin liggja þó í flugi til N-Ameríku og síðar meir til Asíu,“ segir Skúli í lauslegri þýðingu Viðskiptablaðsins.

„Ég geri ráð fyrir því að fjöldi ferðmanna fari yfir eina milljón á ári á næstu árum og verði jafnvel meiri ef ferðaþjónustan og ríkisvaldið halda áfram samstarfi að styrkja innviði enn frekar til að taka á móti slíkum fjölda. Það er mjög mikilvægt að vernda og varðveita náttúruperlur landsins.“

Skúli segir að félagið stefni að því að vera með sex vélar í rekstri sumarið 2014 en þá stendur jafnframt til að félagið hefji flug til New York. Aðspurður um fyrirmyndir Wow air segir Skúli að Wow air hafi horft til félaga á borð við Southwest Airlines, JetBlue, Norwegian og Virgin Atlantic en reyni þó helst að marka sína eigin stefnu.

Í viðtalinu er Skúli spurður að því hvort að léttleiki og óalvarlegt yfirbragð Wow air sé í hættu eftir því sem félagið stækkar meira. Skúli svarar því neitandi og segir að markmiðið sé að vera með stundvísasta og áreiðanlegasta flugfélagið, en um leið með bros á vör.