Skúli Mogensen, stærsti eigandi Wow air hefur aukið hlutafé félagsins um 500 milljónir króna. Þá tekur Skúli jafnframt við sem forstjóri félagsins af Baldri Oddi Baldurssyni.

Í tilkynningu frá Wow air kemur fram að það er Títan fjárfestingafélag, sem er í eigu Skúli, sem hefur skráð sig fyrir 500 milljón króna hlutafjáraukningu í félaginu. Skúli hefur hingað til verið stjórnarformaður félagsins.

„Það er búið að vera virkilega gaman að koma að stofnun og uppbyggingu Wow air undanfarið ár og sérstaklega að sjá þær frábæru  móttökur sem við höfum fengið hjá fjölda farþega okkar og er mikil hvatning fyrir okkur að halda áfram að bjóða ódýrustu fargjöldin til og frá Íslandi með bros á vör,“ segir Skúli í tilkynningunni.

„Ég hlakka svo sannarlega til að halda uppbyggingu Wow air áfram og við munum kynna sumaráætlun okkar innan skamms þar sem við munum bjóða upp á bæði nýja áfangastaði og aukna tíðni á vinsælustu leiðir okkar.“

Þá kemur fram að hlutafjáraukningin muni efla Wow air til muna og gera félaginu kleift að bæta enn frekar allan aðbúnað, þjónustu og leiðarkerfi WOW air.

Baldur Oddur Baldursson, forstjóri WOW air, við fyrsta flug félagsins þann 31.05.12.
Baldur Oddur Baldursson, forstjóri WOW air, við fyrsta flug félagsins þann 31.05.12.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Baldur Oddur Baldursson, fráfarandi forstjóri Wow air, við fyrsta flug félagsins í maílok.