Skúli Malmquist hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins og hefur störf 1. september næstkomandi. Hann tekur við starfinu af Hlyni Páli Pálssyni, sem hefur verið ráðinn í listrænt stjórnendateymi Borgarleikhússins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Skúli nam alþjóðaviðskipti og stjórnun frá London European Business School og hefur lokið MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík. Skúli var einn af stofnendum Zik Zak Kvikmynda og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá árunum 1999 til 2018 og þróaði og framleiddi yfir 20 kvikmyndir á þeim tíma.

„Við hlökkum virkilega til að fá Skúla til liðs við Íslenska dansflokkinn og erum viss um að hans víðtæka reynsla við leikhús, kvikmyndir og aðrar listgreinar, innanlands, jafnt sem utan, muni nýtast mjög vel hjá flokknum," segir Erna Ómarsdóttir, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, í tilkynningunni.