*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 13. desember 2017 13:00

Skúli valinn Markaðsmaður ársins

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, verðlaunin á Kjarvalstöðum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, var kjörinn Markaðsmaður ársins 2017 hjá ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi, sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári að því er segir í tilkynningu frá ÍMARK.

Árleg Markaðsverðlaun ÍMARK, samtaka markaðsfólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn í gærkvöldi á Kjarvalstöðum, en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Markaðsmanni ársins verðlaun fyrir árið 2017.

„WOW air var stofnað í nóvember 2011 og fór í jómfrúarflug sitt til Parísar 31. Í maí 2012. Skúli er sannur frumkvöðull og hefur náð gríðarlega miklum árangri með vörumerki WOW air og vaxið hratt á markaði þar sem samkeppni er hörð. Því hefur það kallað á mikla greiningarhæfni og hæfileika til að skilja markaðinn og aðgreina sig frá öðrum fyrirtækjum,” segir ennfremur í tilkynningunni.

Íslensku Markaðsverðlaunin hafa verið afhent 25 sinnum, en þetta er í 19. skiptið sem ÍMARK heiðrar einstakling fyrir vel unnin markaðsstörf. Dómnefndin í ár var skipuð Andra Þór Guðmundssyni, Höllu Helgadóttur, Andrési Jónssyni, Maríu Hrund Marinósdóttur, Magnúsi Geir Þórðarsyni, Ólafi Þór Gylfasyni, Elínu Helgu Sveinbjörnsdóttur og Jóni Þorgeiri Kristjánssyni.