Fjallað er um íslenska flugfélagið Wow air, í eigu Skúla Mogensen, forstjóra félagsins, í umfjöllun borgarmálatímaritsins City A.M . og félagið neft sem dæmi um lággjaldaflugfélög sem nú eigi í vandræðum líkt og fleiri félög í flugbransanum.

Er sagt frá því, líkt og Viðskiptablaðið gerði á dögunum , að félagið hafi framlengt viðræðum sínum við bandaríska fjárfestingarfélagið Indigo partners út marsmánuð.

Hafði félagið lýst yfir vilja til að leggja um 75 milljónir dala á næstu 10 árum inn í flugfélagið, í staðinn fyrir 49% eignarhlut, en íslensk lög fyrirbyggja að aðilar utan EES svæðisins geti eignast meira í íslenskum flugfélögum.

En jafnframt er haft eftir heimildarmanni í fluggeiranum að það sem viðræðurnar strandi á sé hve miklum eignarhlut Skúli muni halda eftir í félaginu að afloknum samningaviðræðum.

„Skúli vill meira heldur en Indigo er viljugt að gefa honum. Þetta er hin klassíska staða að félagið er ógjaldfært. Það er einskis virði. En að einhver ætli að dæla 75 milljónum dala í félagð á 10 árum, er ekki mikil upphæð í flugvélageiranum,“ segir viðmælandinn og segir að annars sé hótunin sú að félaginu verði ekki bjargað.

„Svo þeir eru að segja að ef þú vilt bjarga flugfélaginu þínu þá verður þú þynntur út niður í fimm eða fjögur prósent.“ Bendir viðmælandinn jafnframt á að um leið og flugfélög séu farin að vera í fréttum vegna fjárhagsvandræða, séu kreditkortafyrirtækin farin að heimta greiðslur jafnóðum, sem og aðrir birgjar.