Skúli Helgason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, ætlar að demba sér í borgarstjórnarslaginn í vor. Fram kemur í Fréttatímanum i dag að hann bjóði sig fram til þriðja sætis í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Hann segist í samtali við blaðið hafa áhyggjur af því að menntamál geti orðið út undan þar sem Oddný Sturludóttir ætlar ekki að gefa kost á sér í kosningaslagnum.

Helstu mál hans verða því mennta- og græn atvinnumál.

Hann var þingmaður Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili en hefur frá síðustu þingkosningum starfað sem verkefnastjóri fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við mótun sameiginlegrar sóknaráætlunar í menntamálum.