SKY sjónvarpsstöðin hefur ákveðið að loka fyrir öll íslensk kreditkort sem notuð eru til þess að greiða af stöðvum þeirra. Þetta er gert fyrir tilstuðlan SMÁÍS (Samtök myndrétthafa á Íslandi), sem segja að talsvert hafi borið á íslenskum fyrirtækjum sem auglýsi áskriftir af SKY. Samkvæmt SMÁÍS hafa þessir aðilar enga heimild til að selja þessu þjónustu og útiloka samtökin ekki frekari aðgerðir gegn þeim aðilum sem selja áskriftir af stöðvum sem ekki er leyfisveiting fyrir.

"Ástæðan er einfaldlega sú að efnisréttindi af flestu því efni sem sýnt er á SKY hefur verið keypt af íslenskum fjölmiðlum fyrir íslenskan markað sem greiða fyrir það hátt verð til eiganda efnisins. SKY hefur keypt samskonar rétt en þeirra heimildir gilda þó einungis fyrir Bretland. Því er sala áskriftar af SKY sjónvarpsstöðvunum hér á landi án allra heimilda og brot á lögum um höfundarétt og útvarpslögum," segir í tilkynningu frá SMÁÍS.

"Það skekkir rekstragrundvöll íslenskra fjölmiðla að þurfa að keppa við ólöglega starfsemi sem þrífst á því að selja það sem aðrir eiga. Þeir sem fylgja lögum og greiða fyrir réttindi sín fá minni tekjur og auglýsendur fá minna fyrir peningana sína. Með þessu hverfa peningar úr veltu íslenskra fjölmiðla, sem gerir rekstur þeirra erfiðari og framboð þeirra fátæklegra."